Enski boltinn

Howe heillaðist af ís­lensku hverunum og sá leik eftir spjall við leigu­bíl­­­stjóra

Sindri Sverrisson skrifar
Eddie Howe naut þess að prófa eitthvað nýtt með því að fara með fjölskyldu sinni til Íslands í sumar.
Eddie Howe naut þess að prófa eitthvað nýtt með því að fara með fjölskyldu sinni til Íslands í sumar. Getty/Serena Taylor

Eddie Howe þykir einn mest spennandi knattspyrnustjórinn í enska boltanum eftir að hafa stýrt nýríku liði Newcastle inn í Meistaradeild Evrópu á aðeins átján mánuðum í starfi. Hann ræddi um Íslandsför sína við Daily Mail.

Eins og fram kom fyrr í sumar þá var Howe á ferð með fjölskyldu sinni á Íslandi í sumarfríi í júní, þar sem hann sá meðal annars íslenska landsliðið spila við Slóvakíu og heillaðist af Herði Björgvini Magnússyni.

Howe var vissulega í fríi á Íslandi, og nýtti meðal annars ferðina til eldfjallaeyjunnar til að fræða son sinn um jarðfræði, en viðurkennir að fótboltinn sé aldrei langt undan.

„Svo þarna var ég í leigubíl og leigubílstjórinn segir að Ísland sé að spila. Ég var bara: „Úúh, ættum við að fara?“ Synir mínir þrír svöruðu. „Við verðum að fara!“ Martin Dubravka spilaði fyrir Slóvakíu svo að ég gat alla vega séð hvernig staðan væri á honum,“ sagði Howe. 

Hann hafði einnig verið í Grikklandi, fyrir ferðina til Íslands, en alltaf með símann innan handar til að undirbúa næstu leiktíð sem best. Meðal annars með kaupunum á Sandro Tonali frá AC Milan.

En Howe var ekki bara að hugsa um fótbolta á ferð sinni um Ísland, og Geysissvæðið heillaði hann.

„Elsti sonur minn, Harry, átti fyrir höndum próf í skólanum – efnafræði, steinar – og það hefði ekki getað passað betur að vera á eldfjallaeyju. Við elskuðum goshverina, þeir voru hápunkturinn okkar,“ sagði Howe sem kvað fjölskylduna hafa varið heilum degi í útsýnisferð með rútu. „Þetta er svo fallegt og myndrænt,“ sagði Howe heillaður.

Fríinu er hins vegar lokið hjá Howe og fram undan tveir vináttuleikir á St. James‘ Park um helgina, gegn Fiorentina og Villarreal. Liðið hefur svo keppni í ensku úrvalsdeildinni eftir rúma viku, með leik við Aston Villa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×