Fótbolti

Lloyd dregur í land: „Ég ann þessu liði“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carli Lloyd lék 316 landsleiki á árunum 2005-21 og skoraði 134 mörk.
Carli Lloyd lék 316 landsleiki á árunum 2005-21 og skoraði 134 mörk. getty/Katelyn Mulcahy

Carli Lloyd, ein besta fótboltakona allra tíma, hefur dregið í land með gagnrýni sína á bandaríska landsliðið sem komst naumlega upp úr sínum riðli á HM.

Í lokaumferð riðlakeppninnar á HM mætti bandaríska liðið Portúgal og þrátt fyrir að hafa verið sterkari aðilinn í leiknum mátti engu muna að Bandaríkin töpuðu leiknum. Í uppbótartíma slapp varamaðurinn Ana Capeta í gegnum vörn bandaríska liðsins en skaut í stöng. Leikar fóru 0-0 og það dugði Bandaríkjakonum til að komast áfram.

Eftir leikinn gagnrýndi Lloyd sína gömlu liðsfélaga, fyrir spilamennskuna og að fagna sætinu í sextán liða úrslitum óhóflega.

„Ég hef aldrei upplifað neitt svona lagað. Að vera dansandi, brosandi. Ég meina, stöngin var maður leiksins,“ sagði Lloyd. „Þið eruð heppnar að vera ekki á heimleið.“

Lloyd útskýrði ummæli sína frekar í gær og dró verulega í land með gagnrýni sína.

„Ég var mjög gagnrýnin á liðið í gær. Ég hef fengið smá tíma til að melta þetta og sofa á þessu og ég vil að fólk skilji að ég ann þessu liði,“ sagði Lloyd.

Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt ummæli Lloyds eru Lindsey Horan, leikmaður bandaríska liðsins, og þjálfari þess, Vlatko Andonovski. Hann sagði ummælin galin.

Bandaríkin mæta Svíþjóð í sextán liða úrslitum á HM á sunnudaginn. Bandaríska liðið varð heimsmeistari 2015 og 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×