Erlent

Kveikti í sér til að mót­mæla of­ríki kvik­myndarisa

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Það var ansi tilkomumikið þegar Mike Massa steig logandi á svið á mánudag.
Það var ansi tilkomumikið þegar Mike Massa steig logandi á svið á mánudag. Instagram/Twitter

Áhættuleikarinn Mike Massa kveikti í sér á fjöldafundi SAG-AFTRA, verkalýðsfélagi starfsfólks í bandarísku sjónvarpi og útvarpi, til að mótmæla ofríki kvikmyndastúdíóa. Umfangsmestu verkföll í Hollywood í áratugi standa nú yfir.

Massa gekk út á sviðið þakinn logum á fjöldafundinum sem var haldinn í Atlanta í Georgíu á mánudag. Þar að auki hélt hann á skilti sem á stóð „SAG-AFTRA í verkfalli!“. Honum var fagnað með hrópum og klöppum.

Í viðtali við Washington Post sagðist Massa hafa samþykkt að taka þátt í átján sekúndna áhættuatriðinu til að sýna að áhættuleikarar væru frekar til í að láta brenna sig líkamlega en að leyfa stúdíóunum að grilla sig með vondum kjörum.

Massa hefur starfað sem áhættuleikari í fjölda ára og verið áhættustaðgengill fyrir Harrison Ford í nokkrum myndum, þar á meðal Indiana Jones and the Dial of Destiny sem kom út fyrr í sumar.

Á Instagram-síðu Massa skrifaði hann færslu þar sem hann sagði áhættuleikara vera þreytta á að vera brenndir af AMPTP, sambandi kvikmyndagerðar- og sjónvarpsframleiðenda.

Umfangsmestu verkföll í sextíu ár

Stjórn SAG-AFTRA samþykkti 13. júlí að fara í verkfall sem náði til um 160 þúsund leikara. Samningaviðræður höfðu fyrir það staðið yfir í margar vikur við sam­tök kvik­mynda-og sjón­varps­fram­leið­enda vestan­hafs sem sjá um launa­samninga fyrir hönd stúdíóa og streymis­veitna.

Stéttarfélagið fór fram á hækkun launa, bætta vinnuaðstæður og ákvæði um bann við notkun gervigreindar en fengu ekki sínu fram.

Á meðan á verkfallinu stendur mega leikarar hvorki leika né sinna ýmsum kynningum á myndum á borð við frumsýningar eða verðlaunahátíðir.

Handritshöfundar í Hollywood voru þegar komnir í verkfall sem hófst 2. maí síðastliðinn. Það hefur ekki gerst síðan 1960 að bæði leikarar og handritshöfundar fari í verkfall samtímis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×