Erlent

Týnd í fjögur ár en er nú fundin

Máni Snær Þorláksson skrifar
Móðir stúlkunnar hélt úti Facebook-síðu um leitina að dóttur sinni. Þessa mynd birti hún fyrir tæpu ári síðan. Nú er dóttir hennar komin í leitirnar.
Móðir stúlkunnar hélt úti Facebook-síðu um leitina að dóttur sinni. Þessa mynd birti hún fyrir tæpu ári síðan. Nú er dóttir hennar komin í leitirnar. Facebook

Stúlka sem týndist þegar hún var fjórtán ára gömul fyrir um fjórum árum síðan er nú fundin. Stúlkan sem um ræðir gekk inn á lögreglustöð og óskaði eftir því að vera fjarlægð af listanum yfir týnt fólk.

Alicia Navarro bjó í borginni Glendale í Arizona þegar hún týndist þann 15. september árið 2019. Hafin var leit að Navarro og var alríkislögreglan (e. FBI) meðal annars fengin til að aðstoða við leitina. Í grein NBC News um málið kemur fram að lögreglunni hafi borist þúsundir ábendinga um Navarro í gegnum árin.

Á dögunum gekk Navarro svo inn á lögreglustöð í smábæ í Montana, sem er talsvert norðar í Bandaríkjunum, og sagði hver hún væri.

Lögreglan í Glendale birti þessa mynd af Navarro þegar hún fannst.Glendale Police Department

Scott Waite, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Glendale, segir að Navarro hafi upphaflega flúið af heimili sínu. Málið sé nú í rannsókn þar sem ekki er alveg skýrt hvernig hún komst til Montana. Þá segir Waite að Navarro hafi verið ein þegar hún mætti á lögreglustöðina.

„Hún er ekki í neinum vandræðum. Hún á ekki yfir höfði sér neinar ákærur,“ segir Waite. Hann segir einnig að Navarro hafi hitt móður sína aftur á ný og að endurfundir þeirra hafi verið tilfinningalega yfirþyrmandi fyrir þær báðar.

Segir fólki að halda í vonina

Móðir Navarro birti myndbandsyfirlýsingu á Facebook-síðu sem tileinkuð var leitinni að dóttur sinni. Þar biður hún fólk sem var í svipaðri stöðu og hún að nota þetta mál sem dæmi til að halda í vonina. 

„Kraftaverkin gerast, aldrei missa vonina“ segir hún. „Ég er ekki með nein smáatirði en það mikilvæga er að hún er á lífi.“

Samkvæmt Jose Santiago, talsmanni lögreglunnar í Glendale, hefur Navarro beðið móður sína fyrirgefningar á því að hafa „látið hana ganga í gegnum þetta.“ Að hennar sögn var um óviljaverk að ræða. Hún vonast til þess að geta verið með móður sinni og haldið áfram með líf sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×