Sport

Fjöldi leikmanna í NFL neita að taka þátt í Netflix þáttaröð

Andri Már Eggertsson skrifar
Marcus Mariota var í fyrstu seríu
Marcus Mariota var í fyrstu seríu Vísir/Getty

Fyrr í mánuðinum gaf Netflix út heimildarþættina „Quarterback“ þar sem fylgst var grannt með síðasta tímabili hjá þremur leikstjórnendum í NFL-deildinni á síðasta tímabili.

Netflix vill gera aðra seríu af þessum þáttum en er í stökustu vandræðum með að finna leikstjórnendur þar sem margir hafa sagt nei.

Þættirnir eru í samstarfi við framleiðslufyrirtæki í eigu goðsagnarinnar Peyton Manning og er hann sjálfur að vinna á bak við tjöldin við gerð þáttaraðarinnar.

Tua Tagovailoa, leikstjórnandi Miami Dolphins sagði að Netflix hafi haft samband við sig til að taka þátt í seríu tvö en hann hafi neitað vegna þess að hann vill ekki sýna of mikið frá sýnu persónulega lífi.

Jalen Hurts hefur tvisvar sagt nei við Netflix sem vildi fá hann í fyrstu seríuna og reyndi síðan aftur fyrir seríu tvö. Hurts gerði fyrr á þessu ári nýjan fimm ára samning við Philadelphia Eagles virði milljónir dollara.



Einnig hafa Sam Howell sem er á sínu öðru ári í deildinni með Washington Commanders og Justin Fields, leikmaður Chicago Bears, sagt nei við Netflix. 

Í fyrstu seríu tóku Patrick Mahomes, Kirk Cousins og Marcus Mariota þátt í verkefninu. Aðrir sem neituðu að vera í fyrstu þáttaröð voru meðal annars Ryan Tannehill og Matthew Stafford.

Það verður því ansi fróðlegt að fylgjast með hverjir munu taka þátt í verkefninu þar sem Peyton Manning hefur staðfest að það eigi að gera seríu tvö. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×