Erlent

Kona drepin af birni

Samúel Karl Ólason skrifar
Grábjörnum hefur farið fjölgandi í Montana á undanförnum árum.
Grábjörnum hefur farið fjölgandi í Montana á undanförnum árum. Getty/Avalon

Grábjörn virðist hafa banað konu í Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum um helgina. Lík konunnar fannst á laugardaginn, nærri vinsælli gönguleið en atvikið er enn til rannsóknar.

Embættismenn í Montana sendu út yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að spor eftir grábjörn hefðu fundist nærri líki konunnar og að svo virðist sem hún hafi dáið eftir að hafa komist í tæri við björn. Fólki hefur verið ráðlagt að halda sig frá svæðinu.

Í síðustu viku slasaðist kona alvarlega í Yellowstone þegar vísundur stangaði hana. Þá var hún á göngu í þjóðgarðinum ásamt ferðafélaga. Um það leyti var fólk einnig varað við því að birnir hefðu sést á ferðinni nærri Yellowstone.

Grábjörnum hefur farið fjölgandi í Norður-Ameríku og í Montana. Fólki í Yellowstone og víðar er ráðlagt að bera bjarnaúða á göngu og ferðast í hópum þegar það er hægt. Þá er fólki ráðlagt að vera með hávaða nærri lækjum og öðrum svæðum þar sem birnir gætu átt erfitt með að heyra fólk nálgast.

Héraðsmiðillinn Montana Standard sagði frá því í síðustu viku að skjóta hefði þurft grábjörn í Glacier þjóðgarðinum á fimmtudaginn. Sá björn hefði verið að áreita fólk í sumar. Í síðustu viku ógnaði hann fjölskyldu sem var í lautarferð og reyndi að komast í mat þeirra.

Því var sú ákvörðun tekin að fella bjarndýrið en það var í fyrsta sinn frá 2009 sem fella þarf björn í Glacier þjóðgarðinum því hann er hættur að vera hræddur við mannfólk og ágengur í mat fólks. Skömmu áður hafði þurft að fella annan björn í öðrum þjóðgarði í Montana af sömu ástæðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×