Enski boltinn

Arsenal lék sér að stjörnuliði MLS-deildarinnar í fyrsta leik Rice

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Declan Rice faðmar hér Gabriel Martinelli eftir að sá síðarnefndi skoraði í nótt.
Declan Rice faðmar hér Gabriel Martinelli eftir að sá síðarnefndi skoraði í nótt. AP/Alex Brandon

Arsenal byrjaði frábærlega í fyrsta leik sínum með Declan Rice innan borðs og spennan fyrir komandi tímabil varð ekkert minni hjá stuðningsmönnum félagsins.

Arsenal liðið er í æfingaferð til Bandaríkjanna og vann 5-0 sigur á stjörnuliði MLS-deildarinnar í Washington, D.C. í nótt.

Stjörnulið MLS deildarinnar mætir árlega erlendu liði á þessum tíma en hefur aldrei tapað eins stórt og í þessum leik í nótt.

Gabriel Jesus og Leandro Trossard skoruðu báðir í fyrri hálfleiknum, bæði eftir undirbúning frá Bukayo Saka, og Jorginho skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu í upphafi þessi seinni.

Gabriel Martinelli og Kai Havertz innsigluðu síðan sigurinn á lokamínútum leiksins.

Lionel Messi er ekki byrjaður að spila með Inter Miami og tók ekki þátt í þessum leik. Stjörnulið MLS-deildin var því án stærstu stjörnu sinnar en Wayne Rooney stýrði liðinu.

Þetta er annar sigur Arsenal í tveimur leikjum félagsins á móti stjörnuliði MLS-deildarinnar en liðið vann 2-1 árið 2016.

Declan Rice, sem Arsenal keypti á dögunum á 105 milljónir punda, kom inn á sem varamaður á 67. mínútu leiksins í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Chelsea vann 5-0 sigur á Wrexham í æfingaleik þar sem Ian Maatsen skoraði tvívegis í fyrri hálfleik en í þeim síðari bættu Conor Gallagher, Christopher Nkunku og Ben Chilwell við mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×