Erlent

Neita að hafa klippt tré til að gera mót­mælendum erfiðara um vik

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikill hiti hefur haft áhrif á verkfallsaðgerðir handritshöfunda og leikara í Hollywood.
Mikill hiti hefur haft áhrif á verkfallsaðgerðir handritshöfunda og leikara í Hollywood. Ap/Steven Senne

Forsvarsmenn NBC Universal kvikmyndaversins hafna því að hafa snyrt tré á lóð sinni við Universal Studios í þeim tilgangi að gera mótmælendum erfiðara um vik í steikjandi hita.

Borgaryfirvöld í Los Angeles hafa gefið út að trjásnyrtingin sé til rannsóknar og til skoðunar hvort fyrirtækið hafi haft heimild til að klippa af trjánum.

Handritshöfundar og leikarar sem standa nú í samningaviðræðum við fyrirtækið og hafa lagt niður störf kvarta undan meðferð á röð fíkustrjáa sem veitti þeim skugga frá sólinni. Gert er ráð fyrir því að hiti nái allt að 33 gráðum í Los Angeles í þessari viku. The Guardian greinir frá þessu.

Í yfirlýsingu hafna fulltrúar NBC Universal að aðgerðirnar hafi beinst að verkfallsfólki. Trén hafi verið snyrt árlega á þessum tíma og fyrirtækið styðji rétt fólks til mótmæla. Þá standi til að auka skuggavarp á svæðinu.

Writers Guild of America, stéttarfélag handritshöfunda í Hollywood, og The Screen Actors Guild – American Federation of Television and Radio Artists, stéttarfélag leikara, hafa kvartað yfir því að NBC Universal hafi hafnað óskum þeirra um að tryggja félagsmönnum örugga gönguleið í kringum byggingasvæði á lóð Universal Studios.

Þetta hafi skapað hættulegar aðstæður fyrir verkfallsfólk sem hafi neyðst til að vera á annasamri umferðargötu þar sem tveir hafi þegar orðið fyrir bíl.

NBC Universal segir í yfirlýsingu að stjórnendur fyrirtækisins telji sig hafa fullnægt lagalegum skyldum sínum gagnvart bandarískri vinnumarkaðslöggjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×