Enski boltinn

Sjáðu mörkin í undir­búnings­leikjum Liver­pool og United

Smári Jökull Jónsson skrifar
Donny Van De Beek fagnar marki sínu gegn Lyon í dag.
Donny Van De Beek fagnar marki sínu gegn Lyon í dag. Vísir/Getty

Liverpool og Manchester United eru komin á fullt í undirbúningi fyrir tímabilið á Englandi og léku í dag æfingaleiki gegn Karlsruher og Lyon. Bæði lið unnu sigra í leikjum dagsins.

Manchester United mætti í dag franska liðinu Lyon á Murrayfield leikvanginum í Edinborg. Mason Mount var í byrjunarliði United í dag sem stillti upp blöndu af ungum leikmönnum og mönnum með meiri reynslu.

Aðeins eitt mark var skorað í leiknum. Það gerði Hollendingurinn Donny Van De Beek á 49. mínútu með góðu skoti úr teignum eftir sendingu Daniel Gore. Van De Beek var einn af tíu leikmönnum sem komu inn af varamannabekknum í hálfleik.

Jonny Evans var á meðal þeirra sem kom við sögu hjá United í dag en hann skrifaði undir skammtímasamning við félagið í gær. Matej Kovar lék í marki liðsins en forráðamenn United vonast til að ganga frá félagaskiptum Andre Onana sem allra fyrst.

Liverpool er í æfingabúðum í Þýskalandi þessa dagana en liðið lék í dag við Karlsruher í fyrsta æfingaleik sínum þetta sumarið.

Darwin Nunez kom Liverpool yfir strax eftir fjögurra mínútna leik en Karlsruhe komst í 2-1 með mörkum Sebastian Jung og Lars Stindl sitt hvoru megin við hálfleikinn. Karlsruher leikur í næst efstu deild í Þýskalandi og endaði í sjöunda sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

Nýliðinn Dominik Szoboszlai var í byrjunarliði Liverpool í dag en Alexis Mac Allister, sem Liverpool keypti frá Brighton í sumar, kom inn á í hálfleik. Jordan Henderson var ekki í leikmannahópi liðsins frekar en hinn brasilíski Fabinho. Henderson er við það að ganga til liðs við Al Ettifaq í Sádi Arabíu og Fabinho hefur verið orðaður við Al Ittihad og vantar lítið upp á svo þau félagaskipti gangi í gegn sömuleiðis.

Cody Gakpo jafnaði metin fyrir Liverpool í leiknum í dag þegar hann skoraði á 69. mínútu með skoti af markteig eftir að Diogo Jota skallaði boltann fyrir hann.

Í uppbótartíma skoraði Liverpool síðan tvö mörk. Diogo Jota var þar á ferðinni í bæði skiptin og tryggði Liverpool 4-2 sigur. Liverpool mætir næst SpVgg Greauther Furth á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×