Bíó og sjónvarp

Sérfræðingur gáttaður á „Bar­ben­heimer“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Myndirnar gætu ekki verið ólíkari en eru frumsýndar á sama degi og hafa því bundist órjúfanlegum böndum í hugum kvikmyndahúsagesta.
Myndirnar gætu ekki verið ólíkari en eru frumsýndar á sama degi og hafa því bundist órjúfanlegum böndum í hugum kvikmyndahúsagesta.

Paul Dergara­bedian, sér­fræðingur á sviði miðla­greiningar, sem sérhæft hefur sig í að greina miðasölutekjur kvikmyndahúsa vestanhafs, segist vera hvumsa yfir eftir­væntingunni sem ríkir fyrir „Bar­ben­heimer,“ sam­eigin­legum frum­sýningar­degi stór­myndanna Bar­bie og Oppen­heimer.

Banda­ríski dægur­miðillinn IGN hefur eftir Paul að hann muni ekki eftir annarri eins um­ræðu. Hann segist hafa greint gögn um miða­sölur í ára­raðir og aldrei séð annað eins. Myndirnar eru for­sýndar í dag hér á landi og frum­sýndar á morgun, á sama tíma og vestan­hafs.

Myndirnar gætu ekki verið ólíkari, eins og Paul bendir á. Í Bar­bie fer Mar­got Robbie með hlut­verk Bar­bie dúkku í til­vistar­kreppu á meðan Cilli­an Murp­hy fer með hlut­verk vísinda­mannsins sem er á­hrifa­mestur við gerð kjarn­orku­sprengjunnar í Oppen­heimer.

Hífa hvor aðra upp

„Ég hef fylgst með og greint gögn yfir miða­sölu­tekjur kvik­mynda í þrjá­tíu ár núna og ég hef ekki séð svona áður,“ hefur IGN eftir Paul. Segir miðillinn að tugir þúsundir miða hafi selst í for­sölu á báðar myndirnar og er búist við að þær muni raka inn tekjum.

„Markaðs­teymi þessara mynda eiga mikið lof skilið og hafa grætt vel á því að frum­sýna myndirnar á sama tíma,“ segir Paul og vísar sér­stak­lega til þeirra miklu eftir­væntingar sem ríkt hefur eftir myndunum í net­heimum.

„Það að þetta séu svo ó­líkar myndir magnar svo upp þessi á­hrif og vekur enn meiri at­hygli á myndunum. Það eru dæmi um að fólk sé að kaupa sér miða á frum­sýningar­degi á báðar þessar myndir og þetta er fólk sem er ekki einu sinni það á­huga­samt alla­jafna um kvik­myndir.“

Hann segir ó­trú­legt hvernig myndirnar hífi hvor aðra upp. Bar­bie sé markaðs­sett fyrir allt annan hóp en Oppen­heimer. For­svars­menn þeirrar myndar vilji helst laða að sér al­vöru kvik­mynda­nörda, á meðan búist er við að Bar­bie geti fallið vel í kramið hjá venju­legu fólki.

„Alla­jafna ættu svo stórar myndir sem gefnar eru út á sama tíma að hafa skað­leg á­hrif á vin­sældir hvor annarrar og í raun „éta“ vin­sældir hvor annarrar. En í þessu til­viki bæta þær hvor aðra upp.“

Hann segir ljóst að „Bar­ben­heimer“ hafi orðið að sér­stökum við­burði fyrir slysni. Það sé helsta á­stæða þess hve vel hafi tekist til við markaðs­setningu myndanna.

„Ég held að þess vegna hafi þetta gengið svo vel, vegna þess að þetta virkar mjög náttúru­legt og eðli­legt. Nema við séum bara leik­soppar,“ hefur IGN eftir sér­fræðingnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.