Erlent

Sagðist ekki vilja drepa hann áður en hún seldi honum ban­vænan skammt

Magnús Jochum Pálsson og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Leandro DeNiro Rodriguez, dóttursonur Roberts DeNiro, lést fyrr í mánuðinum, aðeins nítján ára gamall.
Leandro DeNiro Rodriguez, dóttursonur Roberts DeNiro, lést fyrr í mánuðinum, aðeins nítján ára gamall. Skjáskot/Twitter

Leandro DeNiro Rodriguez, barnabarn Robert DeNiro, lést af völdum ofskömmtunar eftir að hann tók fentanýlblandaðar morfínpillur. Sú sem seldi honum töflurnar sagði fyrir söluna að hún vildi ekki drepa hann.

Sophia Haley Marks, eiturlyfjasali sem hefur verið kölluð „Percocet-prinsessan“, seldi hinum nítján ára gamla Leandro heimagerðar verkjatöflur, þrjár Oxycodone-töflur og tvær Xanax-töflur, daginn áður en hann lést af ofskammti.

Áður en hún seldi honum töflurnar sem voru blandaðar með hinu stórhættulega fentanýli sendi hún honum skilaboðin „Ég vil ekki drepa þig“ þar sem hún varaði hann við því að kaupa töflurnar. Hún sagðist ekki vilja selja honum töflurnar af því þær væru heimatilbúnar.

Marks er sögð hafa keyrt töflunum til hans á tíunda tímanum sama kvöld. Um tvöleytið um nóttina hafi hún síðan sent honum skilaboð og spurt hvernig hann hefði það, en ekki fengið svar.

Þekkt fyrir að selja börnum eiturlyf og gæti setið inni í sextíu ár

Hin tvítuga Marks var handtekin í Manhattan á fimmtudagskvöld. Hún er ákærð fyrir þrjú fíkniefnalagabrot, sem hún játaði hafa framið fyrir alríkisdómstólnum í Manhattan. 

Í frétt New York Post er því haldið fram að hún komi til með að sitja í fangelsi í allt að sextíu ár fyrir verknaðinn, tuttugu ár fyrir hverja ákæru.

Samkvæmt heimildarmönnum New York Post innan lögreglunnar er Marks þekkt fyrir að selja börnum undir lögaldri eiturlyf. Þá ku alríkislögreglan hafa fylgst með henni í nokkurn tíma áður en hún var handtekin. Í tístinu hér að ofan má sjá teikningu af Marks úr dómsal.


Tengdar fréttir

Ní­tján ára dóttur­sonur Roberts De Niro látinn

Leandro De Niro Rodriguez, barnabarn Óskarsverðlaunaleikarans Roberts De Niro er látinn, nítján ára að aldri. Móðir hans Drena De Niro greindi frá þessu á samfélagsmiðlum í gær og minnist sonar síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×