Enski boltinn

Segir Liverpool þurfa nánast fullkomið tímabil

Jón Már Ferro skrifar
Trent-Alexander Arnold þarf að spila vel á næsta tímabili enda einn af lykilmönnum Liverpool.
Trent-Alexander Arnold þarf að spila vel á næsta tímabili enda einn af lykilmönnum Liverpool. Vísir/getty

Liverpool endaði 22 stigum á eftir Manchester City á síðasta tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Ekki nóg með að vera svo langt frá City þá var Liverpool í fimmta sæti. Leikmenn, stuðningsmenn og allir sem tengjast félaginu sætta sig alls ekki við það.

Trent Alexander Arnold er einn þeirra en hann segir að Liverpool þurfi að eiga nánast fullkomið tímabil til að skáka City. Tímabilið hefst eftir mánuð en Liverpool fer í heimsókn til Chelsea þrettánda ágúst.

„Viljum við enda í fimmta sæti á næsta tímabili? Nei. Við viljum vinna deildina, við viljum gera atlögu að titlinum og keppast um hann. Einnig viljum við vera í Meistaradeildinni og því eru það mikil vonbrigði að vera ekki þar á næsta tímabili.

Við vitum hvernig á að vinna deildina, við vitum hvernig á að keppast við City og þú þarft að vera nánast fullkominn allt tímabilið þannig við ætlum okkur að gera það,“ segir Arnold.

Hann bætir við að stöðugleikinn þarf að vera til staðar. „Við náðum í góð úrslit á móti góðum liðum en töpuðum stigum kæruleysislega, sérstaklega á útivelli. Því er augljóst að við þurfum að bæta það,“ segir Arnold.

Hann spilar iðulega í stöðu hægri bakvarðar. Á síðasta tímabili kom hann mikið inn á miðsvæðið. Gengi Liverpool var gott með hann miðsvæðis. Þrátt fyrir það er Arnold ekki viss hvort það sama verði uppi á teningum á komandi tímabili.

„Ég spila þar sem mér er sagt að spila og ég nýt þess að spila fótbolta. Ég nýt þess að spila í hægri bakverðinum, ég nýt þess einnig að spila inni á miðunni,“ segir Arnold.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×