Lífið

Ís­lensk vega­bréf Bobby Fischer fundust fyrir til­viljun

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Aldís Sigfúsdóttir tók við vegabréfunum fyrir hönd Fischersetursins frá Stefáni Hauki Jóhannssyni, sendiherra Íslands í Tókýó.
Aldís Sigfúsdóttir tók við vegabréfunum fyrir hönd Fischersetursins frá Stefáni Hauki Jóhannssyni, sendiherra Íslands í Tókýó. Utanríkisráðuneytið

Stefán Haukur Jóhanns­son, sendi­herra Ís­lands í Japan, af­henti Fischer­setrinu á Sel­fossi tvö ís­lensk vega­bréf skák­snillingsins Bobby Fischer sem gefin voru út árið 2005 þegar hann fékk ríkis­borgara­rétt hér á landi. Vega­bréfin voru týnd en fundust fyrir til­viljun, eitt í sendi­ráðinu í Japan og annað á skrif­stofu utan­ríkis­ráðu­neytisins.

Utan­ríkis­ráðu­neytið greinir frá í færslu á sam­fé­lags­miðlinum Face­book. Þar kemur fram að annað vega­bréfið hafi fundist við til­tekt í sendi­ráðinu í Tokýó í vor. Um­rætt vega­bréf var gefið út í febrúar 2005 og notað til að koma Fischer til Ís­lands þar sem hann fékk síðar ís­lenskt ríkis­fang.

Bobby Fischer varð ríkisfangslaus eftir að hann afsalaði sér bandarískum ríkisborgararétti til að forðast lögsókn þar, en Fischer hafði teflt við Boris Spasskí í Júgóslavíu þvert á viðskiptabann Bandaríkjanna. Utanríkisráðuneytið

Sendi­herra Ís­lands í Tókýó, Stefáni Hauki Jóhanns­syni varð strax hugsað til Fischer­setursins á Sel­fossi en svo vildi til að hann hafði fyrir skemmstu verið að að­stoða setrið við að komast í sam­band við ekkju Fischer sem er frá Japan og býr þar.

Verða safngripir

Segir í færslu ráðu­neytisins að leitað hafi verið til laga- og stjórn­sýslu­skrif­stofu utan­ríkis­ráðu­neytisins til að kanna hvort og hvernig hægt væri að láta vega­bréf látins ein­stak­lings þriðja aðila, Fischer­setrinu, í té.

„Í þeirri mála­leitan kom á daginn að annað vega­bréf hafði ný­verið fundist á prótó­koll­skrif­stofu ráðu­neytisins, al­mennt vega­bréf fyrir ís­lenska ríkis­borgara út­gefið í mars 2005, fyrir þennan sama Robert James Fischer. Í því vega­bréfi er hann skráður ís­lenskur. Þar var þá um að ræða vega­bréfið sem hann fékk eftir að hann öðlaðist ís­lenskan ríkis­borgara­rétt, um leið og "vega­bréf út­lendings" var gatað og ó­gilt.“

Bobby Fischer fékk að endingu íslenskan ríkisborgararétt. Utanríkisráðuneytið

Eftir nokkrar vanga­veltur var niður­staðan sú að ráðu­neytið myndi af­henda setrinu vega­bréfin tvö sem gefin voru út í nafni Robert James Fischer til ó­tíma­bundinnar vörslu og sýningar sem safn­grip, með þeim fyrir­vara að ráðu­neytið gæti kallað það til sín ef þörf krefði.

Þá vildi svo skemmti­lega til að Stefán Haukur var staddur á landinu þegar niður­staðan lá fyrir. Hann mælti sér mót við Al­dísi Sig­fús­dóttur í Fischer­setrinu og af­henti henni vega­bréfin tvö og gat þannig fylgt sögunni eftir frá upp­hafi til enda.

Fyrra vegabréf Fischer var sérstaklega merkt sem vegabréf útlendings.Utanríkisráðuneytið





Fleiri fréttir

Sjá meira


×