Fótbolti

„Frábær hópur sem er skemmtilegt að spila með“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Benóný Breki Andrésson freistaði þess að skora sigurmarkið.
Benóný Breki Andrésson freistaði þess að skora sigurmarkið. Vísir/Getty

Benóný Breki Andrésson kom inná sem varamaður þegar Ísland gerði markalaust við Grikkland í lokaumferð í riðlakeppni Evrópumóts U-19 ára landsliða í fótbolta karla á Möltu í kvöld. 

„Það var svolítið erfitt að koma inní þennan leik þar sem tempóið var hátt en mér fannst ég hafa mikla orku og koma vel inn í leikinn. Það var markmiðið að koma inná og skora en því miður tókst það ekki,“ sagði Benóný Breki svekktur. 

„Þrátt fyrir vonbrigðin að komast ekki áfram þá var alveg geggjað að fá að spila á þessu móti. Þetta er frábær hópur sem var mjög skemmtilegt að spila með. Það er gaman að geta sagst hafa spilað á Evrópumóti og vonandi höldum við áfram að spila okkur inn á lokakeppnir stórmóta,“ sagði KR-ingurinn. 

Íslenska liðið kallaði eftir vítaspurnu undir lok leiksins og Benóný Breki var í góðri stöðu í því atviki. 

„Ég stóð beint fyrir framan þetta og fyrir mér stoppaði Grikkinn boltann með hendinni og við hefðum átt að fá víti. Dómarinn dæmdi hins vegar ekki og ekkert sem við gátum gert í því,“ sagði framherjinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×