Fótbolti

„Sýndum að við eigum heima á stórmóti“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason jós leikmenn sína lofi. 
Ólafur Ingi Skúlason jós leikmenn sína lofi.  Vísir/Hulda Margrét

Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari U-19 ára landsliðs Íslands í fótbolta var stoltur af lærisveinum sínum eftir markalaust jafntefli við Grikki í lokaumferð Evrópumótsins í Möltu í kvöld. 

„Ég er gríðarlega stoltur af strákunum eftir þennan leik og hef bara verið það allt mótið. Við stóðum okkur frábærlega og sýndum það að við eigum heima á svona stórmóti. Ég er bara mjög ánægður með spilamennskuna heilt yfir á mótinu,“ sagði Ólafur Ingi að leik loknum í kvöld. 

„Við reyndum allt mögulegt til þess að ná að brjóta ísinn í þessum leik og ná inn marki. Við vorum kannski svolítið óþolinmótðir í fyrri hálfleik og vorum að reyna að spila okkur í gegnum pakkann hjá þeim þar sem hann var hvað þéttastur.

Við hefðum þurft að ná að færa boltann hraðar og betur á milli kantanna til þess að ná að opna þá. Koma okkur oftar í stöðuna einn á móti einum og fylla vítateiginn betur. Nú förum við heim þjálfararnir og greinum þetta og skoðum hvað við getum gert betur þegar við lendum í þessum aðstæðum,“ sagði þjálfarinn enn fremur. 

„Samveran með strákunum á mótinu var frábær og þetta er orðin ein stór fjölskylda þetta lið. Þetta eru einstakir drengir og einstakur hópur. 

Liðsheildin er alveg stórkostleg og leikmenn leggja mikið á sig fyrir hvorn annan. Það auk þess hvað starfsfólkið hefur gert til þess að skapa eini góða umgjörð og nokkur kostur er stendur upp úr,“ sagði Ólafur Ingi aðspurður um hvað hann tæki út úr mótinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×