Körfubolti

Fyrsta troðsla Griner eftir fangelsis­vistina í Rúss­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittney Griner sést hér með liðsfélögum sínum Phoenix Mercury.
Brittney Griner sést hér með liðsfélögum sínum Phoenix Mercury. Getty/Steph Chambers

Brittney Griner er farin að láta til sín taka í WNBA-deildinni í körfubolta eftir að þurfta að dúa í næstum því tíu mánuði í rússnesku fangelsi.

Bandaríska körfuboltakonan náði stóru takmarki í leik með Phoenix Mercury á móti Los Angeles Sparks í gær.

Ein af stóru spurningunum fyrir tímabilið var hvernig Griner myndi ganga í WNBA eftir að hafa gengið í gegnum þessa erfiðu óvissumánuði í Rússlandi þar sem hún var á endanum dæmd í níu ára fangelsi fyrir að smygla litlum neysluskammti af hassolíu inn í landið.

Griner hefur staðið sig vel í deildinni í sumar og er með 19,9 stig, 6,6 fráköst og 2,0 varin skot að meðaltali í leik.

Í öðrum leikhluta í gær náði hún síðan að troða boltanum í körfuna í fyrsta sinn á þessu tímabili.

Griner setti ný viðmið í troðslum í kvennadeildinni þegar hún kom inn í deildina árið 2013 en þá höfðu bara tvær konur náð því í sögu WNBA. Griner varð síðan sú fyrsta til að troða í leik í úrslitakeppninni.

Hún sendi skýr skilaboð með troðslu sinni í gær að hún er mætt af fullum krafti í deild þeirra bestu. Það má sjá troðsluna hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×