Enski boltinn

Conte las yfir í brasilísku stjörnunni í tvo tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Richarlison fær hér klapp frá Antonio Conte eftir að sá síðarnefndi tók Brassann af velli.
Richarlison fær hér klapp frá Antonio Conte eftir að sá síðarnefndi tók Brassann af velli. Getty/Mike Hewitt

Richarlison náði ekki að standast þær væntingar sem voru til hans gerðar þegar Tottenham keypti hann frá Everton. Meðferðin hjá knattspyrnustjóranum var örugglega ekki að hjálpa mikið til.

Richarlison hefur nú sagt frá því sem hann þurfti að ganga í gegnum á liðsfundi hjá Tottenham á síðasta tímabili. Hann segir að knattspyrnustjórinn Antonio Conte hafi þá lesið yfir honum í tvo klukkutíma.

Richarlison hafði gagnrýnt Conte eftir að Tottenham datt út úr Meistaradeildinni en Conte svaraði honum opinberlega með því að kalla brasilíska framherjann eigingjarnan. Conte var seinna rekinn frá Tottenham.

Richarlison var gestur í Que Papinho hlaðvarpinu í heimalandi sínu og talaði þar um að það hafi verið rangt hjá sér að gagnrýna knattspyrnustjórann sinn og að honum hafi svo sannarlega verið refsað fyrir það fyrir framan liðsfélaga sína.

„Auðvitað gerði ég mig sjálfan að fífli í viðtalinu með því að segja ég þyrfti tíma og allt annað sem ég sagði. Þetta var eftir að við duttum út úr Meistaradeildinni og ég bað hann seinna afsökunar,“ sagði Richarlison.

„Ég sagði meira segja við hann að ef hann vildi refsa mér þá mætti hann það. Við unnum úr þessu þarna en þegar ég reyndi að komast aftur á skrið þá meiddist ég aftur. Hvort sem þér líkar það betur eða verr þá hefur þetta alltaf áhrif á hausinn,“ sagði Richarlison.

„Hann verður alltaf að sýna ákveðni sína fyrir framan hópinn, láta vita af því að hann sé þarna og hver sé með stjórnina. Það er hans leið að eiga samskipti við fólk og við hópinn. Hann eyddi næstum því tveimur tímum í að lesa yfir mér á liðsfundi og það fyrir framan alla,“ sagði Richarlison og hló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×