Fótbolti

„Þessi liðsheild er einstök“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Íslenska liðið ræðir saman áður en leikurinn gegn Noregi fór af stað í gær.
Íslenska liðið ræðir saman áður en leikurinn gegn Noregi fór af stað í gær. Vísir/Hulda Margrét

Guðmundur Baldvin Nökkvason, leikmaður Stjörnunnar og U19-ára landsliðs Íslands, sagði að það hefði verið skrýtið að fagna jafntefli gegn Norðmönnum í gær. Ísland á enn möguleika á sæti í undanúrslitum Evrópumótsins. 

Ísland og Noregur gerðu í gær jafntefli þegar liðin mættust á Evrópumóti U19-ára landsliða í knattspyrnu. Jöfnunarmark Íslands kom á lokamínútum leiksins og gerir það að verkum að strákarnir eiga enn möguleika á sæti í undanúrslitum.

„Við erum ennþá í möguleika, erum enn með þetta í okkar höndum. Smá gleði, það er skrýtið að vera að fagna jafntefli. Við erum ennþá inni þannig að við fögnum því,“ sagði Guðmundur Baldvin Nökkvason leikmaður Íslands eftir leikinn í gær.

Guðmundur Baldvin sagði að þó það hefði verið fínt að ná jöfnunarmarkinu væru strákarnir svekktir með úrslitin.

„Við erum það. Við fáum lélegt mark á okkur, spurning hvort það hafi verið víti eða ekki, en annars man ég ekki eftir að hafa fengið færi á okkur. Mér fannst við vera að fá betri færi og vera líklegri. Við erum svekktir en samt ánægðir að hafa náð inn jöfnunarmarkinu.“

Eftir mark Norðmanna var íslenska liðið mun sterkari aðilinn úti á vellinum.

„Það sleppti okkur lausum og við gerðum það sem við gerum best, að vinna saman. Þessi liðsheild er einstök.“

Ísland mætir Grikklandi á morgun og þarf sigur í þeim leik til að eiga möguleika á sæti í undanúrslitum auk þess sem íslenska liðið þarf að treysta á sigur Spánverja gegn Noregi.

„Við tökum því rólega á morgun og núllstillum okkur aðeins. Á sunnudag er fullur fókus og ég treysti þjálfurunum fyrir því að halda okkur rólegum og halda spennustiginu réttu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×