Fótbolti

„Ísland á EM er alltaf risastórt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Orri Þorsteinsson fagnar marki sínu á móti Spánverjum í gær.
Ágúst Orri Þorsteinsson fagnar marki sínu á móti Spánverjum í gær. Getty/Seb Daly

Ágúst Orri Þorsteinsson skoraði mark Íslands í 2-1 tapi á móti gríðarlega sterku spænsku landsliði í fyrsta leik íslenska nítján ára landsliðsins á EM á Möltu.

Íslenska liðið lenti 2-0 undir og missti mann af velli með rautt spjald á 87. mínútu leiksins en íslensku strákarnir létu það ekki stoppa sig og Ágúst Orri skoraði á annarri mínútu í uppbótatíma.

„Ísland á EM er alltaf risastórt. Þetta er í fyrsta skiptið sem íslenska nítján ára landsliðið fer á EM og það er bara geggjað,“ sagði Ágúst Orri Þorsteinsson við Huldu Margréti Óladóttur eftir leikinn.

„Mér fannst við ekki halda nógu vel í boltann í fyrri hálfleik en um leið og við þorðum í seinni hálfleik þá sýndum við að við erum allir geggjaðir í fótbolta og að við getum haldið í boltann. Mér fannst við ekki halda nógu vel í boltann í fyrri en bættum úr því í seinni,“ sagði Ágúst Orri.

Spænska landsliðið var ekki búið að fá á sig mark í allir undankeppninni og var því Ágúst sá fyrsti til að skora hjá þeim.

„Tilfinningin er geggjuð að skora en það er bara pirrandi að skora 2-1 mark. Hefði þetta verið jöfnunarmark þá hefði þetta verið miklu sætara,“ sagði Ágúst Orri en hvernig metur hann möguleikana í riðlinum.

„Við getum alltaf komist upp úr þessum riðli. Við vinnum Norðmenn og vinnum síðan Grikkina. Það er markmiðið. Við þurfum bara að berjast eins og við gerum alltaf, vinna sem lið og þá getur allt gerst,“ sagði Ágúst.

Næsti leikur íslensku strákanna er á móti Norðmönnum á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×