Enski boltinn

Segir Szo­boszlai vera jafn­hæfi­leika­ríkan og Haaland: Smell­passar í kerfi Klopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Dominik Szoboszlai var ánægður með að vera kominn í Liverpool treyjuna.
 Dominik Szoboszlai var ánægður með að vera kominn í Liverpool treyjuna. Getty/Andrew Powell

Dominik Szoboszlai er nýjasti leikmaður Liverpool og þeir sem þekkja til hans telja að hann passi mjög vel inn í leikkerfi Jürgen Klopp hjá Liverpool.

Szoboszlai hefur verið að gera flotta hluti í þýsku deildinni og hann er komið í risastórt ábyrgðarhlutverk hjá ungverska landsliðinu eftir að hann var gerður að fyrirliða landsliðsins.

Hinn 22 ára gamli Szoboszlai getur spilað á miðri miðjunni en hefur spilað út á væng hjá RB Leipzig. Hann er frábær skotmaður en hefur flesta kosti góðs miðjumanns.

Liverpool var tilbúið að greiða sextíu milljónir punda fyrir leikmanninn sem segir mikið um hvað Klopp vildi fá hann til sín.

Hann var með sex mörk og átta stoðsendingar í Bundesligunni á síðustu leiktíð en fyrrum umboðsmaður hans sagði að Szoboszlai sé jafnhæfileikaríkur og Erling Braut Haaland hjá Manchester City.

Breska ríkisútvarpið ræddi við ungverskan íþróttafréttamann sem hefur fylgst vel með þróun Szoboszlai undanfarin ár.

„Ég er mjög spenntur að sjá hann fara til Liverpool því hann lítur út fyrir að vera frábær leikmaður fyrir Jürgen Klopp,“ sagði ungverski blaðamaðurinn Aron Aranyossy.

„Vinnusemi hans og orka ættu að sjá til þess að hann smellpassi í liðið. Ég sé fyrir mig hann fóðra Mohamed Salah með frábærum stungusendingum. Hann er góð viðbót sem hressir mikið upp á miðjusvæði liðsins. Hann getur líka rekið boltann eins og að gefa góðar sendingar af yfirvegun og útsjónarsemi,“ sagði Aranyossy.

„Mér finnst að hann ætti að passa vel inn í þetta lið ekki síst vegna ákvörðunartöku hans og góðu auga fyrir taktík,“ sagði Aranyossy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×