Enski boltinn

West Ham búið að samþykkja tilboð Arsenal

Smári Jökull Jónsson skrifar
Declan Rice í leik með enska landsliðinu.
Declan Rice í leik með enska landsliðinu. Vísir/Getty

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Declan Rice verði leikmaður Arsenal á næstu leiktíð. Skysports greinir frá því að West Ham sé búið að samþykkja tilboð Arsenal í enska landsliðsmanninn.

Declan Rice hefur verið heitasti bitinn á enska félagaskiptamarkaðnum síðustu vikurnar. Þegar tímabilinu lauk greindu forráðamenn West Ham frá því að Rice fengi að yfirgefa félagið fyrir rétt verð og strax varð ljóst að Arsenal ætlaði sér að næla í kappann.

Á síðustu dögum bættist Manchester City í kapphlaupið og lagði fram tilboð í Rice. Fyrstu tveimur tilboðum Arsenal var hafnað sem og tilboði Manchester City.

Í morgun bárust síðan fregnir af því að Arsenal hefði lagt fram nýtt tilboð upp á samtals 105 milljónir punda þar sem 5 milljónir væru háðar frammistöðu Rice og Arsenal. Það tilboð hefur nú verið samþykkt og munu viðræður eflaust klárast á næstu dögum.

Félögin eiga enn í viðræðum með fyrirkomulag greiðslunnar af hálfu Arsenal en þetta verður langhæsta verð sem Arsenal hefur greitt fyrir leikmann, sá dýrasti hingað til var Nicolas Pepe sem keyptur var frá Lille á 72 milljónir punda árið 2019.

Declan Rice hefur leikið allan sinn feril með West Ham og vann Sambandsdeildina með félaginu fyrr í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×