Körfubolti

Ævintýri Isabellu halda áfram á erlendri grundu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isabella Ósk Sigurðardóttir í leik á móti Íslandsmeisturum Vals en hér er hún í baráttu um frákast við Ástu Júlíu Grímsdóttur.
Isabella Ósk Sigurðardóttir í leik á móti Íslandsmeisturum Vals en hér er hún í baráttu um frákast við Ástu Júlíu Grímsdóttur. Vísir/Bára

Íslenska körfuknattleikskonan Isabella Ósk Sigurðardóttir spilar ekki áfram í Subway deild kvenna næsta vetur því hún hefur samið við lið í Króatíu.

Isabella Ósk samdi við efstu deildarliðið ZKK Zadar Plus sem er að fara að spila sitt fyrsta tímabil í deildinni frá upphafi.

Félagið var aðeins stofnað fyrir þremur árum og er komið alla leið upp í efstu deild.

Isabella er 25 ára kraftframherji sem hefur verið í landsliðinu undanfarin ár og á að baki tólf landsleiki.

Isabella Ósk hafði áður reynt fyrir sér í áströlsku deildinni með liði South Adelaide Panthers en kom aftur heim á síðustu leiktíð.

Hún samdi fyrst við uppeldisfélag sitt í Breiðabliki en skipti síðan yfir í Njarðvík í lok október.

Isabella Ósk var með 10,8 stig og 11,3 fráköst að meðaltali í deildarkeppninni en hún var frákasta- og framlagshæsti íslenski leikmaður deildarinnar með 19,8 framlagsstig í leik.

Í úrslitakeppninni hækkaði Isabella tölur sínar í 14,0 stig, 12,3 fráköst og 23,0 framlagsstig í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×