Enski boltinn

Enginn leik­maður Liver­pool meðal þeirra verð­mætustu í ensku úr­vals­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold er í 25. sætinu á listanum hjá Transfermarkt.
Trent Alexander-Arnold er í 25. sætinu á listanum hjá Transfermarkt. Getty/Catherine Ivill

Það er örugglega enginn hissa á því að Norðmaðurinn Erling Braut Haaland sé langverðmætasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í dag eftir magnað fyrsta tímabil hans með Manchester City.

Óvæntara er kannski verðmæti leikmanna Jurgen Klopp hjá Liverpool. Það sést kannski á verðmati leikmanna í dag af hverju Liverpool liðið var aldrei með í meistarabaráttunni á þessu tímabili og missti á endanum af Meistaradeildarsæti.

Félagsskiptavefurinn Transfermarkt hefur tekið saman verðmæti leikmanna í ensku úrvalsdeildinni og sett saman topp þrjátíu manna lista.

Manchester City og Arsenal eiga marga fulltrúa meðal þeirra fjórtán efstu og þar eru einnig leikmann frá West Ham, Tottenham. Chelsea, Manchetser United og meira að segja Brighton.

Það er hins vegar enginn leikmaður Liverpool meðal þeirra fjórtán verðmætustu í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Verðmætasti leikmaður Liverpool í dag er Luis Diaz sem er metinn á 75 milljónir evra. Hann er í fimmtánda sæti á lista Transfermarkt. Diaz er líka eini leikmaður Liverpool meðal þeirra tuttugu efstu.

Næstu á eftir Diaz er síðan Darwin Núñez í 23. sæti og eftir honum koma síðan nýi leikmaðurinn Alexis Mac Allister (24. sæti), Trent Alexander-Arnold (25. sæti) og Mohamed Salah (26. sæti).

Erling Braut Haaland er metinn á 180 miljónir evra en næstur á eftir honum er Arsenal maðurinn Bukayo Saka sem er metinn á 120 milljónir evra. Þriðji er síðan liðsfélagi Haaland hjá Manchester City en Phil Foden er metinn á 110 milljónir evra.

Á topp tíu eru einnig Arsenal mennirnir Martin Ödegaard og Gabriel Martinelli sem og Declan Rice hjá West Ham, Harry Kane hjá Tottenham, Enzo Fernandes hjá Chelsea og Marcus Rashford hjá Manchester United.

Manchester City á alls sjö leikmenn á topp tutugu því auk Haaland og Foden eru þar einnig Rodri (6. sæti), Rúben Dias (11. sæti), Bernardo Silva (12. sæti), Jack Grealish (16. sæti) og Kevin De Bruyne (20. sæti).

Það má sjá allan listann hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×