Fótbolti

Davíð Örn: Sama uppskrift og í síðasta leik

Hjörvar Ólafsson skrifar
Davíð Örn Atlason var kampakátur með kvöldverkið.
Davíð Örn Atlason var kampakátur með kvöldverkið. Vísir/Getty

Davíð Örn Atlason lék vel í hægri bakvarðarstöðunni hjá Víkingi þegar liðið bar sigur úr býtum gegn Stjörnunni í 12. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Víkingsvellinum í kvöld. 

Auk þess að skila varnarvinnunni vel skoraði Davíð Örn fyrra mark Víkings í leiknum með góðum skalla eftir hornspyrnu Pablo Punyed. 

„Þetta var svolítið sama uppskrift og í sigrinum gegn Fram í síðasta leiknum fyrir landsleikjahléið. Við skorum tvö mörk á skömmum tíma og föllum svo kannski full aftarlega á völlinn eftir það. Okkur var sem betur fer ekki refsað fyrir það og héldum hreinu sem er mjög jákvætt. 

Fyrst og fremst er ég bara ánægður með að ná í þrjú stig og halda áfram á sigurbraut. Mér fannst við verða full flatir um miðjan seinni hálfleikinn en þrefalda skiptingin hækkaði orkustigið umtalsvert og þeir sem komu inn þar áttu góða innkomu sem skipti miklu máli við að landa þessum sigri,“ sagði Davíð Örn.

„Valur að narta í hælana á okkur og við þurfum bara að halda áfram að einbeita okkur að því sem við erum að gera. Við þurfum að spila betur í lengri tíma en í síðustu tveimur leikjum og halda pressunni lengur á andstæðingum okkar. Það er hins vegar gott að komast aftur í takt eftir hléið og ná í sigur,“ sagði bakvörðurinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×