Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Stjarnan 2-0 | Víkingur heldur áfram fimm stiga forystu á toppnum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Víkingur Nikolaj Hansen Viktor Örlygur
Vísir/Diego

Víkingur lagði Stjörnuna að velli með tveimur mörkum gegn engu þegar liðin áttust við í 12. umferð Bestu-deildar karla í kvöld á Víkingsvellinum í Fossvoginum í kvöld. Víkingur hefur áfram fimm stiga forskot á toppi deildarinnar en Stjarnan er áfram í námunda við fallsvæðið.

Það voru Davíð Örn Atlason og Danijel Dejan Djuric sem tryggðu Víkingi sigurinn með tveimur mörkum með skömmu millibili um miðvik fyrri hálfleiks. 

Davíð Örn stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu frá Pablo Punyed og Danijel skoraði með föstu og hnitmiðuðu skoti rétt utan vítateigs skömmu síðar. 

Stjörnumenn náðu ekki að velgja Víkingum undir uggum en Hilmar Árni Halldórsson var næst því að ná að búa til spennu í leiknum með marktilraunum sínum. 

Fossvogspiltar halda þar af leiðandi áfram fimm stiga forystu á Val á toppi deildarinnar. Víkingur hefur 34 stig eftir 13 leiki en Valur er þar fyrir neðan m eð 29 stig eftir sigur gegn ÍBV fyrr í dag. 

Eftir að hafa tapað fyrir Val og gert jafntefli við Blika í kjölfarið hafa Víkingar borið sigurorð síðustu tveimur deildarleikjum á móti Fram og nú Stjörnunni í síðustu tveimur umferðunum.  

Stjarnan er hins vegar ásamt Fram með 11 stig í níunda til tíunda sæti en ÍBV er í næstneðsta sæti með 10 stig og Keflavík vermir svo botnæstið með átta stig. 

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari toppliðs Víkings.Vísir/Hulda Margrét

Arnar Bergmann: Hefði viljað koma inn þriðja markinu

„Það tók smá tíma að átta okkur á pressunni hjá Stjörnumönnum og hvernig best væri að spila í gegnum hana. Eins og ég sagði fyrir leikinn þá er Stjörnuliðið aggressívt og erfitt að eiga við. Eftir að við skoruðum mörkin okkar féllum við full langt til baka og ég hefði viljað halda uppi pressunni aðeins lengur,“ sagði Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. 

„Ég hefði viljað ná þriðja markinu og klára leikinn fyrr en við svo sem sigldum þessu nokkuð sannfærandi í höfn. Mér fannst orkustigið gott í þessum leik og gott að ná þessum sigri í fyrsta leik efitr landsleikjahé. Við vorum með nokkra leikmenn í verkefnum í þessum glugga og menn voru því á mismunandi stað,“ sagði Arnar Bergmann. 

Logi Tómasson fór út af í hálfleik eftir að hafa fengið höfuðhögg en Arnar sagði Loga vera við góða heilsu: „Logi fékk höfuðhögg síðasta sumar og í vetur líka og af þeim sökum tökum við enga áhættu þegar hann fékk boltann í höfuðið. Logi var hins vegar nokkuð hress bara inn í klefa og ég held að hann sé í góðum málum. Ég veit reyndar ekki hvað hann var að gera í veggnum miðað við þessa sögu hans og við þurfum að skoða það í næstu leikjum,“ sagði þjálfari toppliðsins. 

Jökull: Pirrandi hvernig mörk við fáum á okkur

„Að mínu mati vorum við bara mjög flottir þangað til við lendum undir. Það er mjög pirrandi hversu auðveld mörk við fáum okkur og að hversu vel þeir nýta þau fáu færi sem þeir fá í fyrri hálfleik. Við dettum aðeins niður eftir að við fáum á okkur mörkin tvö en risum aftur upp í seinni hálfleik,“ sagði Jökull I. Elísabetarssson sem stýrir skútinni hjá Stjörnunni. 

„Frammistaðan var góð fyrir utan það að við náðum ekki að binda endahnútinn á sóknirnar og tempóið í spilinu datt aðeins niður undir lok fyrri hálfleiks. Við fáum hins vegar ekkert fyrir það. Það er erfitt að brjóta Víking á bak aftur enda vel rútínerað og drillað lið. Líklega það best drillaða á landinu þessa stundina. Þeir eru þó ekki ósigrandi og mér fannst við eiga færi á að gera betur og ná í stig í þessum leik,“ sagði Jökull skvekktur.

„Hilmar Árni átti góðan leik að þessu sinni og ég var mjög sáttur við hvað hann var ógnandi í hlaupum sínum. Hann og fleiri voru að komast í góðar stöður en það bara tókst ekki að koma boltanum í netið og það skildi liðin að. Það er erfitt að bera þennan leik saman við aðra fyrr í sumar og ég er bara að pæla í þessari spilamennsku eins og staðan er núna,“ sagði Jökull. 

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Stjarnan

Af hverju vann Víkingur?

Þetta var hálfgerður groundhog day. Víkingur þurfti enga flugeldasýningu til þess að fara með sigur af hólmi. Eftir að Stjarnan byrjaði betur náði Víkingur að setja tvö mörk og sigla sigrinu svo í höfn. Víkingur gaf fá færi á sér og leikmenn liðsins nýttu þær glufur sem mynduðust þegar Stjarnan þurfti að sækja jöfnunarmark.

Hverjir sköruðu fram úr?

Davíð Örn Atlason skoraði mark og hélt Ísaki Andra Sigurgeirssyni í skefjum þar til Ísak Andri var tekinn af velli. Ingvar Jónsson varði svo vel þegar Stjarnan komst bakvíð varnarmúr Víkings. Pablo Punyed var svo öflugur á miðsvæðinu að vanda. Hilmar Árni var líflegastur í sóknarleik Stjörnunnar. 

Hvað gekk illa?

Stjarnan spilaði vel úti á vellinum en náði ekki að skapa sér mörg opin marktækifæri. Það voru helst langskot frá Hilmari Árna og föst leikatriði sem voru líkleg til þess að brjóta ísinn fyrir gestina úr Garðabænum.

Hvað gerist næst?

Víkingur sækir Fylki heim fimmtudaginn 29. júní og sama kvöld fær Stjarnan svo FH í heimsókn. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira