Handbolti

Óttast að Gísli Þor­­geir verði frá í að minnsta kosti sex mánuði og EM gæti verið í hættu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir fór úr axlarlið gegn Barcelona.
Gísli Þorgeir fór úr axlarlið gegn Barcelona. Marius Becker/Getty Images

Bennet Wiegert, þjálfari Evrópumeistara Magdeburgar, óttast að íslenski landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson verði frá næsta hálfa árið eða svo eftir að leikmaðurinn fór úr axlarlið í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu en sneri aftur og hjálpaði liðinu að verða Evrópumeistari.

Gísli Þorgeir var stór ástæða þess að Magdeburg fór með sigur af hólmi í Meistaradeildinni. Eftir að hafa meiðst illa á öxl í undanúrslitum gegn Barcelona var ekki talið líklegt að hann myndi taka þátt í úrslitaleiknum gegn Kielce. 

Hinn 23 ára gamli Gísli Þorgeir var svo valinn verðmætasti leikmaður úrslitahelgarinnar en hann spilaði úrslitaleikinn aðeins degi eftir að hafa farið úr axlarlið í þriðja sinn á ferlinum.

Þjálfarinn ekki bjartsýnn

Í dag birtist viðtal við Wiegert í þýska dagblaðinu Bild. Þar segist þjálfarinn vonast til þess að Gísli Þorgeir komist í aðgerð í næstu viku. Wiegert tekur einnig fram að leikmaðurinn ráði hvar og hjá hverjum hann fari í aðgerð.

Wiegert tekur fram að Magdeburg viti ekki hversu lengi Gísli Þorgeir verði frá keppni en hann telur þó að um hálft ár sé að ræða. Það komi í ljós eftir aðgerðina.

Fari svo að Gísli Þorgeir verði frá keppni í sex mánuði þá er hann ekki að koma til baka fyrr en Evrópumótið í Þýskalandi hefst í janúar næstkomandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Gísli Þorgeir beit fast á jaxlinn og Magdeburg vann Meistaradeildina

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sex mörk úr átta skotum þegar lið hans, Magdeburg, vann Meistaradeild Evrópu í handbolta með 30-28 sigri sínum gegn pólska liðinu Kielce í úrslitaleik keppninnar í Lanxess Arena í Köln í dag. Gísli Þorgeir spilaði lungann úr leiknum þrátt fyrir að hafa farið úr axlarlið í undanúrslitaleik Magdeburgar og Barcelona í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×