Erlent

Minna en fjörutíu tíma birgðir af súrefni eftir

Máni Snær Þorláksson skrifar
Jamie Frederick ræddi við fjölmiðla um leitina að kafbátnum fyrr i kvöld.
Jamie Frederick ræddi við fjölmiðla um leitina að kafbátnum fyrr i kvöld. EPA/CJ GUNTHER/OCEANGATE EXPEDITIONS

Kafbáturinn sem hvarf nálægt flaki Titanic síðastliðinn sunnudagsmorgun hefur ennþá ekki fundist en leitað er að bátnum í kapphlaupi við tímann. Eftir minna en fjörutíu klukkutíma verður súrefnið í kafbátnum á þrotum.

Þetta kemur fram í máli Jamie Frederick, kafteini hjá landhelgisgæslu Bandaríkjanna, á fjölmiðlafundi sem haldinn var fyrr í kvöld. Frederick segir að leitað hafi verið á svæði sem er stærra en allt Connecticut-ríki en að hún hafi ekki borið neinn árangur. Fleiri skip eru á leiðinni á svæðið til að hjálpa til við aðgerðirnar sem eru að sögn Frederick gífurlega flóknar.

Þegar kafbáturinn lagði af stað var hann með súrefnisbirgðir fyrir um 96 klukkutíma. Á fjölmiðlafundinum í dag sagði Frederick að um fjörutíu tíma birgðir væru eftir en um fjórir klukkutímar eru liðnir síðan fundurinn var haldinn.

Frederick var spurður á fundinum hvort hann trúi því að báturinn finnist í tæka tíð en sagðist ekki vita svarið við þeirri spurningu. „Það sem ég get sagt er að við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur.“ 

Samkvæmt BBC er talið að fimm manns séu um borð í kafbátnum. Einn þeirra er breski auðjöfurinn Hamish Harding, sem er 58 ára gamall. Auk hans eru feðgarnir Shahzada Dawood og Suleman, úr einni auðugustu fjölskyldu Pakistan, einnig um borð og hinn 73 ára gamli Paul-Henry Nargeolet, sem er franskur landkönnuður.

Þá er líka talið að Stockton Rush, framkvæmdastjóri fyrirtækisins OceanGate, sem gerir út þessar ferðir, sé um borð í kafbátnum. Umrætt fyrirtæki rukkar ferðamenn rúmar 34 milljónir króna fyrir siglingu að flaki Titanic og kafbátaferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×