Fótbolti

Byrjunarliðið gegn Portúgal: Aron Einar úti en Arnór Ingvi inn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Byrjunarlið Íslands gegn Portúgal.
Byrjunarlið Íslands gegn Portúgal. Vísir/Hulda Margrét

Åge Hareide, landsliðsþjálfari karla í fótbolta gerir eina breytingu á byrjunarliði Íslands fyrir leik liðsins við Portúgal í undankeppni EM 2024 sem hefst á Laugardalsvelli klukkan 18:45.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson meiddist í upphitun fyrir leik Íslands og Slóvakíu á laugardaginn var og byrjar á varamannabekknum.

Ein breyting er gerð á liði Ísland sem byrjaði gegn Slóvakíu. Alfons Sampsted fer á varamannabekkinn og Arnór Ingvi Traustason kemur inn í byrjunarliðið.

Valgeir Lunddal Friðriksson kom á síðustu stundu inn fyrir meiddan Aron Einar á laugardaginn en hann færist úr vinstri bakverði yfir í þann hægri.

Guðlaugur Victor Pálsson færist af miðjunni og niður í miðvörð á meðan Hörður Björgvin Magnússon fer úr miðverði í vinstri bakvörðinn. Arnór Ingvi tekur sér stöðu á miðjunni.

Samkvæmt UEFA.com eru Arnór Ingvi, Willum Þór Willumsson og Jóhann Berg Guðmundsson á miðju Íslands í uppstillingunni 4-3-3, með Albert Guðmundsson á hægri kanti. Á sömu síðu var liðinu stillt upp með svipuðum hætti á laugardag.

Albert Guðmundsson var þá skráður á hægri kanti en spilaði sem framherji og Willum var á kantinum í 4-4-2. Áhugavert verður að sjá hvort er ofan á gegn sterku liði Portúgals í dag.

Beina textalýsingu frá leik Íslands og Portúgal má nálgast hér.

Byrjunarlið Íslands

Markvörður: Rúnar Alex Rúnarsson

Hægri bakvörður: Valgeir Lunddal Friðriksson

Miðvörður: Guðlaugur Victor Pálsson

Miðvörður: Sverrir Ingi Ingason

Vinstri bakvörður: Hörður Björgvin Magnússon

Hægri kantmaður: Albert Guðmundsson

Miðjumaður: Willum Þór Willumsson

Miðjumaður: Arnór Ingvi Traustason

Miðjumaður: Jóhann Berg Guðmundsson

Vinstri kantmaður: Jón Dagur Þorsteinsson

Framherji: Alfreð Finnbogason




Fleiri fréttir

Sjá meira


×