Fótbolti

Aron biður Ronaldo ekki um treyjuna og Åge vill skemma partýið

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo varð ekki við beiðni Arons Einars Gunnarssonar um treyjuskipti, á EM 2016, og fær líklega enga slíka beiðni frá Akureyringnum á morgun.
Cristiano Ronaldo varð ekki við beiðni Arons Einars Gunnarssonar um treyjuskipti, á EM 2016, og fær líklega enga slíka beiðni frá Akureyringnum á morgun. Getty/Clive Brunskill

Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var spurður út í það þegar Cristiano Ronaldo neitaði honum um treyjuskipti, á EM 2016, á blaðamannafundi í dag og hann ætlar ekki að endurtaka leikinn á morgun, þegar Ísland og Portúgal mætast á Laugardalsvelli í undankeppni EM í fótbolta.

Þjálfarinn Åge Hareide segir ljóst að Ísland ætli sér að koma í veg fyrir að minningar Ronaldos frá 200. landsleiknum verði of góðar:

„Ég held að allir vilji eyðileggja [partýið]. En þetta er frábært afrek hjá honum. Hann er enn að skora mörk og er búinn að vera í svona góðu formi í svo mörg ár. Ég man þegar ég var hjá Manchester United í heimsókn hjá Ole Gunnari Solskjær, og Ronaldo var þá ungur strákur, hvernig hann æfði og spilaði þá þegar, fyrir næstum 25 árum síðan. Það er ótrúlegt að hann hafi getað spilað í svona langan tíma,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í dag og bætti við:

„Við fögnum honum eftir leik en í leiknum sjálfum þurfum við að særa hann aðeins.“

Aron rifjaði upp góðan leik íslenska liðsins gegn Portúgal á EM 2016, þann fyrsta sem Ísland spilaði á stórmóti, þar sem Íslendingar fögnuðu 1-1 jafntefli.

Eftir leikinn varð það að heimsfrétt þegar Ronaldo hafnaði beiðni Arons um að skiptast á treyjum, og Aron ætlar ekki að endurtaka leikinn á morgun:

„Ég held að ég sleppi því. Ég held að hann kæmi líka með það að hann ætlaði að eiga treyjuna, því þetta er 200. leikurinn hans. Svo ég held að ég sleppi því,“ sagði Aron á blaðamannafundinum í dag.

Aron missti af leik Íslands við Slóvakíu á laugardag en hann hefur glímt við meiðsli undanfarið og í upphitun kom í ljós að hann gæti ekki spilað. Hann kveðst enn vera tæpur fyrir leikinn á morgun og því óvíst að hann spili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×