Fótbolti

Aron Einar meiddist í upphitun og verður ekki með

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aron Einar verður ekki með íslenska landsliðinu í dag.
Aron Einar verður ekki með íslenska landsliðinu í dag. Getty/Robbie Jay Barratt

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, spilar ekki leik dagsins við Slóvakíu í undankeppni EM 2024. Hann var upprunalega skráður í byrjunarliðið en meiðsli gerðu vart við sig í upphitun.

Aron Einar víkur úr byrjunarliði Íslands vegna meiðsla sem virðast hafa tekið sig upp í upphitun. Ákvörðun um breytinguna var tekin aðeins örfáum mínútum fyrir leik, eftir að upphitun lauk.

Valgeir Lunddal Friðriksson kemur inn í íslenska liðið í stað Arons sem átti að byrja á miðjunni. Líklega fer Valgeir í vinstri bakvörð, Hörður Björgvin sem var þar færist í miðvörð og Guðlaugur Victor stígur upp á miðjuna úr miðverði.

Jóhann Berg Guðmundsson tekur við fyrirliðabandinu af Aroni Einari fyrir leik dagsins.

Leikurinn hefst klukkan 18:45 og er í beinni textalýsingu hér.

Byrjunarlið Íslands

Markvörður: Rúnar Alex Rúnarsson

Hægri bakvörður: Alfons Sampsted

Miðvörður: Sverrir Ingi Ingason

Miðvörður: Hörður Björgvin Magnússon

Vinstri bakvörður: Valgeir Lunddal Friðriksson

Hægri kantmaður: Willum Þór Willumsson

Miðjumaður: Guðlaugur Victor Pálsson

Miðjumaður: Jóhann Berg Guðmundsson (f)

Vinstri kantmaður: Jón Dagur Þorsteinsson

Framherji: Albert Guðmundsson

Framherji: Alfreð Finnbogason




Fleiri fréttir

Sjá meira


×