Lífið

Beyoncé kennt um aukna verð­bólgu

Árni Sæberg skrifar
Beyoncé hefur sennilega verið að hugsa um eitthvað allt annað en verðbólguna í Svíþjóð þegar hún tróð upp í Stokkhólmi.
Beyoncé hefur sennilega verið að hugsa um eitthvað allt annað en verðbólguna í Svíþjóð þegar hún tróð upp í Stokkhólmi. Kevin Mazur/Getty

Verðbólga mældist 9,7 prósent í maí í Svíþjóð, sem er töluvert meira en spáð hafði verið. Verðhækkun hótelgistingar og veitinga leiddi verðlagshækkanir og koma stjórstjörnunnar Beyoncé gæti skýrt hækkunina.

Fyrsta tónleikaferðalag tónlistarkonunnar Beyoncé síðan árið 2018, Endurreisnartúrinn, hófst í Stokkhólmi þann 10. maí síðastliðinn.

Gríðarleg spenna hefur verið tónleikaferðalaginu og því hefur verið spáð að velta þess verði allt að tveir milljarðar Bandaríkjadala, sú langmesta í sögu tónleikaferðalaga.

Það virðist þó ekki aðeins verða hagur Beyoncé sjálfrar sem vænkast vegna tónleikaferðalagsins. Verð hótelgistingar og veitinga reis upp úr öllu valdi í Stokkhólmi yfir helgina sem Beyoncé var í heimsókn. 

Á meðan vertar kunna vart aura sinna tal eftir helgina er það þó sænskur almenningur sem finnur fyrir slæmum afleiðingar gósentíðar í gisti- og veitingabransanum. Verðbólga í landinu mældist nefnilega töluvert meiri en búist var við í maí.

„Ég myndi ekki endilega kenna Beyoncé alfarið um aukningu verðbólgu, en tónleikar hennar og alheimseftirspurn eftir því að sjá hana í Stokkhólmi virðist hafa ýtt henni upp á við,“ segir Michael Grahn, hagfræðingur hjá Danske Bank, í samskiptum við breska ríkisútvarpið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.