Handbolti

„Þá er maður kominn með alvöru stimpil á sig“

Jón Már Ferro skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var valinn leikmaður tímabilsins hjá Magdeburg.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var valinn leikmaður tímabilsins hjá Magdeburg. Vísir/Getty

„Tímabilið er búið að vera frábært. Að sama skapi hefur lítið vantað upp á til að þetta væri gjörsamlega sturlað tímabil. Við verðum að öllum líkindum jafnir Kiel að stigum í deildinni en þeir vinna á markatölu.“ segir Gísli Þorgeir Kristjánsson sem var valinn leikmaður ársins hjá þýska handboltaliðinu Magdeburg fyrr í dag. 

Einungis einn leikur er eftir á tímabilinu í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Gísli spilar með Magdeburg í úrslitakeppni Meistaradeildar Evrópu næstu helgi.

„Hápunkturinn á þessu tímabili er að komast í Final4 í Meistaradeildinni. Ég held að án efa verður það minn hápunktur á tímabilinu. Persónulega þá voru nokkrir leikir hér og þar á tímabilinu sem maður gerði vel,“ segir Gísli.

Gísli er lykilmaður í íslenska landsliðinu í handbolta. Nýr landsliðsþjálfari var ráðinn á dögunum en það var enginn annar en Snorri Steinn Guðjónsson.

„Ég er svakalega spenntur fyrir því að vinna með Snorra og líst svakalega vel á framhaldið. Við erum með fáranlega spennandi lið og mikla getu til að fara í hæstu hæðir með Danmörku og þessum allra bestu liðum. Til þess þurfum við að fínpússa nokkra hluti. Ég er spenntur að takast á við það með Snorra og strákunum,“ segir Gísli.

Í vetur gerði Gísli samning við Magdeburg til 2028.

„Mig langar að halda áfram að vinna eins marga titla og hægt er. Við erum með heimsklassa lið og ég sé persónulega að við komust ennþá ofar. Ég ætla halda áfram minni vegferð og bæta mig sem handboltaleikmann,“ segir Gísli

„Það væri það allra stærsta og komast á Ólympíuleikana 2024 í París. Það er eitthvað sem mig dreymir um og að fá medalíu um hálsinn. Það er eitthvað sem mann þyrstir í. Þá er maður kominn með alvöru stimpil á sig,“ segir Gísli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×