Skoðun

Fúsk­leysi er fram­kvæman­legt

Helga Sigrún Harðardóttir skrifar

Fernumálið svokallaða, sem Heimildin vakti athygli á nýverið, er skýrt dæmi um það þegar fólk er svo að segja eitt til frásagnar um árangur sinn og afrakstur og að mikilvægur rekjanleiki liggur ekki fyrir. Sama staða hefur reyndar verið uppi á öðrum vettvangi umhverfismála þar sem frjálslega hefur verið farið með hugtakið kolefnisjöfnun. En hvernig er hægt að fá árangur staðfestan með óyggjandi hætti? Svarið er staðlar.

Með notkun staðla svara stjórnendur fyrirtækja spurningunni „Hvernig er best að gera þetta?“ og svarið er fengið frá bestu sérfræðingum hverju sinni sem jafnframt sammælast um niðurstöðuna. Þar eru líka hugtök og orð (t.d. endurnýting og endurvinnsla) skilgreind svo enginn vafi leikur á því hvað er hvað. Niðurstaðan er svo gefin út í formi staðals.

Hagaðilar (sem stundum er löggjafinn sjálfur) geta þannig gert kröfu um að þjónustuveitandi eða vöruframleiðandi fylgi stöðlum og eftir atvikum, fái faggildar vottunar-, skoðunar eða prófunarstofur til að staðfesta árangurinn. Veitendur þjónustu og framleiðendur vöru geta að sama skapi valið að auka traust viðskiptavina og hagaðila með því að sýna fram á, með aðkomu þriðja aðila, að gera það sem þeir segjast vera að gera.

Vottunarhæf stjórnunarkerfi sem byggja á ISO stöðlum innihalda grundvallarhugmyndir og meginreglur sem reksturinn byggir á s.s. að uppfylla kröfur sem geta bæði verið lögbundnar eða stafað annars staðar frá, s.s. frá neytendum. Stjórnunarkerfi leggja ríka áherslu á hagsmunaaðila, krafa er um að ákvarðanir séu teknar á grundvelli traustra sönnunargagna, að ráðist sé í reglulegar innri og ytri úttektir og áhættugreiningar og að lokum að faggildur vottunaraðili taki reksturinn út og votti að hann sé í samræmi við kröfur sem til hans eru gerðar og hagsmuni sem kerfið hverfist um. T.d. aðfangakeðjan og samstarfsaðilar séu traustir.

Þó akur valkvæðrar staðlanotkunar sé á ýmsum sviðum óplægður hér á landi gagnast þeir mjög vel, um allan heim, við að koma í veg fyrir fúsk, fjártjón, álag og óreglu og auka gæði, öryggi og neytenda-, heilsu- og umhverfisvernd.

Höfundur er framkvæmdastjóri hjá Íslenskum stöðlum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×