Lífið

Úti­loka að ABBA komi saman á Euro­vision 2024

Atli Ísleifsson skrifar
Benny Andersson, Agnetha Faltskog, Anni-Frid Lyngstad og Björn Ulvaeus við opnun ABBA Voyage-heilmyndatónlleikaýningarinnar í London á síðasta ári.
Benny Andersson, Agnetha Faltskog, Anni-Frid Lyngstad og Björn Ulvaeus við opnun ABBA Voyage-heilmyndatónlleikaýningarinnar í London á síðasta ári. Getty

Sænsku tónlistarmennirnir Björn Ulvaeus og Benny Andersson hafa útilokað að hljómsveitin ABBA komi aftur saman þegar Eurovision fer fram í Svíþjóð í maí á næsta ári. Þá verða fimmtíu ár liðin frá því að ABBA vann Eurovision með lagi sínu Waterloo.

Þeir Benny og Björn ræddu við BBC Newsnight í gær þar sem þeir útilokuðu endurkomu. Sömuleiðis höfnuðu þeir hugmyndum um að þeir myndu semja lag fyrir sænsku undankeppnina.

Sigur ABBA í Eurovision 1974 var fyrsti sigur Svíþjóðar í keppninni, en með sigri Loreen í Liverpool fyrr í mánuðinum jöfnuðu Svíar met Íra, það er að hafa unnið Eurovision-keppnina sjö sinnum.

Þeir Benny og Björn sögðust ekki hafa áhuga á að koma aftur fram á sviði með þeim Agnethu Fältskog og Anni-Frid Lyngstad – sama þó um væri að ræða bara eitt kvöld.

„Ég vil það ekki,“ sagði Andersson. Hann segir það sama eiga við um öll hin. „Við getum alveg fagnað fimmtíu árum af ABBA án þess að vera saman á sviði,“ segir Andersson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×