Enski boltinn

Fær gefins miða á úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Knoll sést hér reyna að verjast bullum úr hópi stuðningsmanna AZ Alkmaar.
Chris Knoll sést hér reyna að verjast bullum úr hópi stuðningsmanna AZ Alkmaar. Getty/Angelo Blankespoor

58 ára gamall stuðningsmaður West Ham er hetja í augum margra í dag og launin fyrir hetjudáðir hans er ekki bara frægðin, uppklapp á Ólympíuleikvanginum og beiðnir um myndatökur með öðrum stuðningsmönnum um síðustu helgi.

West Ham ákvað nefnilega að gefa Chris Knoll, sem er kallaður „Knollsy“, miða á úrslitaleik Sambandsdeildarinnar í Prag 7. júní næstkomandi. Mótherjinn verður ítalska félagið Fiorentina.

Hetjudáðina vann hann á seinni undanúrslitaleik West Ham og hollenska liðsins AZ Alkmaar.

Hann varði þar fjölskyldur og vini leikmanna West Ham þegar ólátabullur úr röðum stuðningsmanna AZ Alkmaar reyndu að brjóta sér leið inn í þann hluta stúkunnar þar sem fólk tengt leikmönnum enska liðsins horfði á leikinn.

Það náðust myndir af honum eftir átökin, skyrtan var kannski rifin en hann var engu að síður brosandi.

„Ég er ekki hetja. Ég gerði bara það sem þurfti að gera. Það var líka annar maður sem var að verjast þeim. Ég er ekki hrifinn að svona bullum og varð bara að reyna að stoppa þá,“ sagði Chris Knoll við Daily Mail.

„Mér fannst besta vörnin vera að ráðast á þá. Það sást langa leið að þeir ætluðu að skapa vandræði og ég vildi passa upp á fólkið að baki mér,“ sagði Knoll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×