Innlent

Stendur ekki til að byggja endur­vinnslu við kirkju­garðinn

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Fjöldi fólks hafði samband við kirkjugarðana til að lýsa yfir áhyggjum sínum af áformum stýrihóps Sorpu um að reisa þar endurvinnslustöð.
Fjöldi fólks hafði samband við kirkjugarðana til að lýsa yfir áhyggjum sínum af áformum stýrihóps Sorpu um að reisa þar endurvinnslustöð. vísir/vilhelm

Ekki stendur til að heimila byggingu endurvinnslustöðvar í landi Kópavogskirkjugarðs, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastdæma.

Greint var frá því í vikunni að að gangi hugmyndir stýrishóps Sorpu eftir verði kirkjugarðurinn við Lindakirkju í Kópavogi minnkaður um sem nemur einum hektara og að þar verði komið fyrir nýrri endurvinnslustöð Sorpu. 

Tillagan vakti hörð viðbrögð og fann Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri sig knúna til að stíga fram og vekja athygli á því að meirihlutinn teldi aðra staði heppilegri undir stöðina. 

Nú hafa Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæma lýst yfir furðu sinni á þeim hugmyndum sem nýverið voru settar fram í tillögum stýrihópsins. „Fjöldi fólks hefur haft samband við kirkjugarðanna til að lýsa áhyggjum sínum,“ segir í tilkynningu.

„Mikilvægt er að árétta að ekkert formlegt erindi vegna þessa hefur borist til stjórnar Kirkjugarðanna frá starfshópnum og er hér því aðeins um að ræða tillögur starfshóps SORPU að ræða.“

Ekki standi því til að skerða land Kópavogskirkjugarðs undir neina aðra og óskylda starfsemi enda muni hann gegna stóru hlutverki í framtíðaráformum Kirkjugarða Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×