Golf

Koepka í sérflokki og Sims þreif hillu fyrir hann

Sindri Sverrisson skrifar
Brooks Koepka er með pláss í bikaraskápnum og Jena Sims eiginkona hans sló á létta strengi á TikTok eftir sigurinn í gær.
Brooks Koepka er með pláss í bikaraskápnum og Jena Sims eiginkona hans sló á létta strengi á TikTok eftir sigurinn í gær. AP/@jenamsims

Brooks Koepka varð um helgina tuttugasti kylfingurinn í sögunni til að ná því að vinna fimm risamót á ferlinum. Þessi 33 ára Bandaríkjamaður er núna í sérflokki á meðal efstu kylfinga heimslistans í dag.

Koepka stóð af sér samkeppnina á lokahring PGA meistaramótsins í gær og fór hann á 67 höggum, höggi minna en Norðmaðurinn Viktor Hovland sem veitt hafði honum mesta samkeppni.

Koepka endaði á -9 höggum eða tveimur höggum á undan Hovland og Scottie Scheffler sem lék lokahringinn á 65 höggum.

Koepka er aðeins þriðji kylfingurinn til að ná að vinna PGA meistaramótið þrisvar sinnum, á eftir Tiger Woods og Jack Nicklaus. Og eins og fyrr segir hefur hann nú unnið fimm risamót frá því að hann fagnaði fyrst sigri á Opna bandaríska mótinu árið 2017 en það mót vann hann einnig 2018, og svo PGA-meistaramótið 2018, 2019 og 2023.

Á síðustu sex árum hefur Koepka því unnið fimm risamót á meðan að næstu menn á eftir honum hafa unnið tvö risamót.

En sigurinn í gær eru ekki einu gleðitíðindin fyrir Koepka sem unnið hefur sig til baka úr erfiðum meiðslum og komist aftur á toppinn.

Hann á sömuleiðis von á barni með eiginkonu sinni, Jena Sims, sem leyfði tárunum að flæða þar sem hún fylgdist með Koepka fagna sigri á sjónvarpsskjánum, eins og hún sýndi á TikTok. Þau tilkynntu um óléttuna fyrr í þessum mánuði.

Sims bauð líka upp á kostulegt svar þegar hún var spurð af hverju hún væri ekki á vellinum til að fylgjast með Koepka, þar sem hún þreif hillu í bikaraskápnum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×