Enski boltinn

Dagný skoraði og Chelsea á titilinn vísan

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dagný skoraði fyrir West Ham í dag.
Dagný skoraði fyrir West Ham í dag. Vísir/Getty

Dagný Brynjarsdóttir skoraði fyrir West Ham í ensku úrvalsdeildinni í dag í 2-1 sigri liðsins á Leicester. Chelsea á meistaratitilinn vísan eftir mikilvægan sigur á Arsenal.

Fyrir leikinn í dag var West Ham ennþá í smávægilegri fallbaráttu en Leicester gat minnkað muninn á milli liðanna niður í eitt stig með sigri. West Ham hafði ekki unnið sigur í deildinni síðan í lok janúar og tapað sjö af síðustu átta deildarleikjum sínum.

West Ham náði forystunni í leiknum gegn Leicester í dag þegar Sophie Howard skoraði sjálfsmark. Á 60. mínútu fékk West Ham síðan víti eftir að boltinn fór í höndina á leikmanni Leicester. Dagný Brynjarsdóttir steig fram og skoraði örugglega úr vítaspyrnunni, hennar ellefta mark á tímabilinu í öllum keppnum.

Í uppbótartíma fékk Ruby Mace leikmaður Leicester sitt annað gula spjald en skömmu síðar minnkaði Hanna Cain muninn fyrir heimaliðið úr vítaspyrnu. Leicester fékk eitt færi í lokin en skalli Cain fór framhjá og West Ham fagnaði því góðum sigri.

West Ham er nú í áttunda sæti deildarinnar með 20 stig.

Chelsea með níu fingur á titlinum

Chelsea á meistaratitilinn vísan eftir 2-0 sigur á Arsenal í toppslag í dag. Liðið er með fimm stiga forskot á Manchester United á toppi deildarinnar en United á leik til góða, nágrannaslag gegn Manchester City í kvöld. 

Með sigri í dag hefði Arsenal minnkað muninn á Chelsea niður í tvö stig og um leið gefið Manchester United tækifæri á að ná efsta sætinu með sigri gegn City.

Svo fór hins vegar ekki. Guro Reiten og Magdalena Eriksson skoruðu mörk Chelsea í 2-0 heimasigri liðsins og liðið er nú komið með níu fingur á meistaratitilinn en Chelsea mætir botnliði Reading í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×