Enski boltinn

Til­finninga­þrungin stund þegar Anfi­eld kvaddi fjóra leik­menn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Roberto Firmino skoraði í lokaleiknum sínum á Anfield og fékk heiðursvörð eftir leik.
Roberto Firmino skoraði í lokaleiknum sínum á Anfield og fékk heiðursvörð eftir leik. Vísir/Getty

Það var tilfinningaþrungin stund á Anfield í gær þegar fjórir leikmenn Liverpool léku sinn síðasta heimaleik fyrir félagið. Einn vinsælasti leikmaður félagins skoraði í lokaleik sínum á heimavelli.

Liverpool gerði jafntefli við Aston Villa þegar liðin mættust á Anfield í gær en leikurinn var síðasti heimaleikur Liverpool á tímabilinu. Fjórir leikmenn félagsins léku þar sinn síðasta heimaleik fyrir félagið en þeir Naby Keita, Alex Oxlade-Chamberlain, James Milner og Roberto Firmino munu allir yfirgefa félagið þegar samningar þeirra renna út í sumar.

Vinsældir Roberto Firmino á meðal stuðningsmanna Liverpool eru gífurlegar en hann kom til félagsins árið 2015 frá þýska félaginu Hoffenheim þar sem hann hafði leikið í fjögur tímabil. Leikmennirnir fjórir fengu allir heiðursvörð eftir leik en óhætt er að segja að fögnuðurinn hafi verið mestur þegar Firmino steig fram.

Stuðningsmenn Liverpool voru byrjaðir að syngja til heiðurs Firmino löngu áður en hann kom inn á völlinn sem varamaður á 72. mínútu leiksins en hann skoraði jöfnunarmarkið á 89. mínútu við mikinn fögnuð áhorfenda. 

Þegar leik var lokið gekk Firmino hringinn á vellinum og sungu stuðningsmenn hástöfum. Það mátti sjá tár á hvarmi Firmino sem skorað hefur 81 mark í 255 leikjum fyrir félagið.

James Milner er sömuleiðis í hávegum hafður á Anfield og þó svo Oxlade-Chamberlain og Naby Keita hafi ekki náð að láta sína frægðarsól rísa jafn hátt fengu þeir sömuleiðis góðar móttökur að leik loknum í gær.

Allir voru leikmennirnir hluti af liði Liverpool sem vann enska meistaratitilinn árið 2020 í fyrsta skipti í 31 ár, Meistaradeild Evrópu árið 2019 sem og deildabikarinn og FA-bikarinn á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×