Enski boltinn

„Sófa­­meistararnir“ fögnuðu við ó­­hefð­bundnar að­­stæður

Aron Guðmundsson skrifar
Leikmenn Manchester City ærðust af fögnuði
Leikmenn Manchester City ærðust af fögnuði Vísir/Skjáskot

Manchester City varð í dag Eng­lands­meistari í knatt­spyrnu án þess þó að spila leik. Tap Arsenal gegn Notting­ham For­est sá til þess að titillinn fór í bláa hluta Manchester­borgar og því varð City svo­kallaður „sófa­­meistari.“

Á Twitter-reikningi Manchester City birtist mynd­band skömmu eftir að dómari leiksins í leik Notting­ham For­est og Arsenal flautaði leikinn af. For­est hafði unnið 1-0 sigur, tryggt sæti sitt í ensku úr­vals­deildinni og um leið tryggt það að Eng­lands­meistara­titilinn endaði hjá Manchester City.

Leik­menn Manchester City höfðu hópast saman á æfinga­svæði fé­lagsins og fylgst með leik Arsenal og það brutust út mikil fagnaðar­læti meðal þeirra í leiks­lok.

Ekkert lið á nú töl­fræði­legan mögu­leika á því að skáka Manchester City í ensku úr­vals­deildinni.

Þetta er þriðji Eng­lands­meistara­titill Manchester City í röð og sá níundi í sögu fé­lagsins.

Það verður væntan­lega mikil gleði ríkjandi á Eti­had-leik­vanginum á morgun þegar að meistararnir taka á móti Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×