Handbolti

Ráðning HSÍ á Snorra Steini strandi á for­manninum: „Snýst um ein­hvern titt­linga­skít“

Aron Guðmundsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ og Snorri Steinn Guðjónson
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ og Snorri Steinn Guðjónson Vísir/Samsett mynd

Hand­bolta­sér­fræðingurinn Arnar Daði Arnars­­son segir peninga­­mál ekki standa í vegi fyrir því að Snorri Steinn Guð­jóns­­son, þjálfari Vals, verði ráðinn lands­liðs­­þjálfari ís­­lenska karla­lands­liðsins í hand­­bolta. Hann furðar sig á vinnu­­brögðum formanns HSÍ í ráðningar­­ferlinu.

Rætt var um stöðuna sem upp er komin í landsliðsþjálfaraleit HSÍ í nýjasta þætti Hand­kastsins en Arnar Daði, um­sjónar­maður þáttarins, hóf um­­ræðuna um lands­liðs­­þjálfara­­starfið á því að rekja söguna undan­farna mánuði. 

Áttatíu og sex dagar eru liðnir frá því að HSÍ batt enda á sam­­starf sitt við Guð­­mund Þórð Guð­­munds­­son, þá­verandi lands­liðs­­þjálfara. Á þeim tíma er HSÍ búið að funda með Christian Berge, Degi Sigurðs­syni og Snorra Steini Guð­jóns­syni.

„24.apríl, var Christan Berge búinn að segja nei við HSÍ sam­kvæmt mínum heimildum,“ segir Arnar Daði í Hand­kastinu. „Daginn eftir var Snorri Steinn búinn að funda með HSÍ í annað skipti, 29.apríl var hann búinn að funda með HSÍ í þriðja skiptið og hjólin farin að snúast.“

Christian Berge, þjálfari Kolstad og fyrrum landsliðsþjálfari Noregs

Arnar segir að á þessum tíma­punkti hafi til­finningin verið sú að að­eins tíma­spurs­mál væri hve­nær málið yrði klárað.

„Nú, sau­tján dögum eftir þennan þriðja fund Snorra Steins og HSÍ, er ekki enn búið að klára málið.“

GOG sett sig í samband við Snorra

Á mánu­daginn bárust af því fréttir að Nico­lej Krickau, þjálfari GOG í Dan­mörku myndi taka við Flens­burg í Þýska­landi. Snorri Steinn spilaði á sínum tíma með GOG og er afar vel liðinn hjá fé­laginu og kom nafn hans strax inn í um­ræðuna um það hver yrði næsti þjálfari liðsins.

Í gær var síðan greint frá því hér á Vísi að for­svars­menn GOG hefðu sett sig í sam­band við Snorra Stein með það í huga að hann myndi taka við sem þjálfari liðsins.

„Þetta er með ó­líkindum,“ sagði Arnar Daði í Hand­kastinu. „Ef ég ætti að setja mig í spor Snorra Steins, þá geri ég mér grein fyrir því að hann er búinn að vera í við­ræðum við HSÍ í núna að verða tvo mánuði. Þar af leiðandi sé hausinn á honum kominn á þann stað að lands­liðs­þjálfara­starf ís­lenska lands­liðsins sé það starf sem hann vill núna.

Ég held að Snorra Steini muni alltaf bjóðast að taka við GOG þegar að það starf er laust. Sömu sögu er kannski ekki að segja um ís­lenska lands­liðið. Guð­mundur Guð­munds­son er meira og minna búinn að vera með þetta lands­lið undan­farin 12 ár.“

Í rass­vasanum á einum manni

Arnar Daði furðar sig á vinnu­brögðum HSÍ í þessu máli, sér í lagi hlut­verki formanns sam­bandsins, Guð­mundar B. Ólafs­sonar.

„For­maður HSÍ hefur kannski mætt í eitt við­tal frá því að Guð­mundur var rekinn, þar gas­lýsti hann að þetta hafi verið sam­eigin­leg á­kvörðun HSÍ og Guð­mundar. Eftir það hefur hann ekki sést.

Guðmundur B. Ólason er formaður HSÍ.vísir

Jóhann Ingi Guð­munds­son, einn af sér­fræðingum Hand­kastsins, tók í sama streng.

„Í fyrsta lagi þá er þetta starf sem cirka billjón þjálfarar myndu vilja taka að sér, ís­lenska lands­liðið er mjög heillandi lið til þess að taka við og gera góða hluti með. Ég myndi því halda að það ætti að vera nokkuð auð­velt að finna kandídata í að þjálfa þetta lið.

Ég hef á­hyggjur af því hvernig þetta er unnið. Eins og þetta lítur út fyrir manni og maður heyrir út undan sér, að þetta sé bara í rass­vasanum á einum manni, þá er þetta mikið á­hyggju­efni.“

Snúist um „titt­linga­skít“

Arnar Daði segir að sam­kvæmt sínum heimildum strandi þetta allt á for­manni HSÍ.

„Það sem ég hef heyrt er að Róbert Geir Gísla­son, fram­kvæmda­stjóri HSÍ, hefur ekkert um málið að segja. Af þeim sam­tölum sem ég hef átt, við vini og kunningja Róberts Geirs, hef ég heyrt að Róbert Geir hafi engin svör.“

Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ

Arnar Daði segir mögu­lega ráðningu á Snorra Steini í starf lands­liðs­þjálfara ekki stranda á peninga­málum: „Heldur snýst þetta um ein­hvern titt­linga­skít.“

Jóhann Ingi segir málið klaufa­lega unnið hjá for­ráða­mönnum HSÍ.

„Þeir búa sér til gott svig­rúm með því að láta Ágúst Jóhanns­son og Gunnar Magnús­son stýra lands­liðinu í loka­leikjunum í undan­keppni EM. Fá rosa­lega góðan tíma til þess að koma þessu frá en fyrir mér kemur þetta klaufa­lega út. Fyrir mér er þetta verk­efni sem hefði mátt leysa með meiri fag­mennsku, á styttri tíma og í sátt við sam­fé­lagið.

Um­ræðuna um þjálfara­mál ís­lenska lands­liðsins sem og Hand­kastið í heild sinni má hlusta á hér fyrir neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×