Körfubolti

Holtavörðuheiði opnuð á ný en hálka og þungfært

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Frá Holtavörðuheiðinni klukkan 12:50.
Frá Holtavörðuheiðinni klukkan 12:50. Vegagerðin

Það er ekki hlaupið að því að komast á stórleik Tindastóls og Vals í kvöld. Það er skítaveður, hálka og Holtavörðuheiði var lokað um tíma. Á meðal þeirra sem festust þar voru dómarar leiksins.

Samkvæmt heimildum Vísis er þegar mikil hálka í Norðurárdal og bílar hafa farið út af veginum þar. Stuðningsmenn Vals verða því að fara varlega á leið sinni norður. Hægt er að fara lengri leiðina um Laxárdalsheiði en sá vegur er vissulega ekki sérstakur.

Hannes Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, tjáði íþróttadeild að dómarar leiksins séu fastir upp á heiði í lokuninni. Þeir voru þó pollrólegir og stóðu af sér mesta storminn. Þar sé aftur á móti mikill skafrenningur og lítið skyggni. Leikmenn Vals fóru norður í gær og bíða bara eftir leiknum á Króknum.

Vísir veit til þess að einhverjir séu að setja naglana sína aftur undir bílinn áður en haldið verður í svaðilför á Krókinn.

Vonandi komast allir heilu og höldnu á þennan risaleik í Skagafirðinum á eftir.

Uppfært klukkan 13.31:

Vegagerðin er búin að opna heiðina. Upphaflega átti hún ekki að opna aftur fyrr en 14.30 en blessunarlega náðist að opna fyrr. Færðin er þó ekki sérstök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×