Innlent

Samninga­fundi slitið og stefnir í verk­föll

Oddur Ævar Gunnarsson og Helena Rós Sturludóttir skrifa
Sonja Ýr Þorbergsdóttir segir engan samningsvilja til staðar hjá samninganefnd Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir segir engan samningsvilja til staðar hjá samninganefnd Sambandi íslenskra sveitarfélaga. BSRB

Samninga­fundi BSRB og Sam­bandi ís­lenskra sveitar­fé­laga sem hófst klukkan 13:00 hefur verið slitið. For­maður BSRB segir fundinn engu hafa skilað. Verk­föll hefjast því að ó­breyttu á mánu­dag.

„Þetta er í raun og veru bara ó­breytt staða, þessi fundur skilaði engu nýju inn í þetta sam­tal og kjara­deilan er enn­þá í mjög hörðum hnút,“ segir Sonja Ýr Þor­bergs­dóttir, for­maður BSRB.

Hún segir engan sam­tals­grund­völl fyrir hendi við samninga­nefnd sam­bandsins. „Hún sýnir að okkar mati engan samnings­vilja.“

Miklar deilur hafa staðið á milli BSRB og Sambandsins. BSRB hefur sakað sambandið um að mismuna starfsfólki sínu með tilliti til launa og krafist þess að sambandið leiðrétti það. 

Sambandið hefur hins vegar vísað þessu ásökunum á bug og hefur nú skorað á forystu BSRB að fara með málið fyrir dóm og óska eftir flýtimeðferð. Ef dómsniðurstaða sýnir fram á brot sveitafélaga þá verði laun starfsfólks leiðrétt, enda sé það stefna sveitafélaga að fylgja jafnréttislögum í hvívetna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ekki hefur verið boðað til annars fundar á milli deilu­aðila og segir Sonja að sátta­semjari hafi ekki talið til­efni til þess að boða til hans í ljósi þess hve langt ber á milli.

Verk­­föll hefjast því að ó­­breyttu hjá starfs­­fólki BSRB á leik­­skólum og grunn­­skólum þann 15. maí næst­komandi. Fara starfs­­menn leik­­skóla í Kópa­vogi, Garða­bæ og Mos­­fells­bæ í verk­­fall auk starfs­­fólks í grunn­­skólum Kópa­vogs, Sel­tjarnar­ness og Mos­­fells­bæjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×