Íslenski boltinn

„Hefðum kannski átt að gera þetta að­eins hraðar, bæði í fyrri og seinni hálf­leik“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ásdís Karen í leik gegn Stjörnunni.
Ásdís Karen í leik gegn Stjörnunni. Vísir/Hulda Margrét

Ásdís Karen Halldórsdóttir spilaði allan leikinn í 1-1 jafntefli Vals gegn Selfossi í kvöld. Valur hefur byrjað mótið vel og eru sem stendur í 2. sæti deildarinnar, en Þróttur R. situr í efsta sætinu með betri markatölu.

Spurð út í úrslit kvöldsins segist Ásdís svekkt.

„Við vorum auðvitað meira með boltann og áttum fleiri sóknir þannig að sanngjörn úrslit hefðu kannski verið þrjú stig fyrir okkur en við þurfum bara að gera betur.“

Fyrri hálfleikur leiksins var heldur tíðindalaus, hvorugu liði tókst að skapa sér hættuleg marktækifæri og staðan var markalaus í hálfleik. Valur kom þó af krafti út úr búningsherbergjunum og voru komnar marki yfir eftir aðeins nokkrar mínútur í seinni hálfleik.

„Þær bökkuðu aðeins á okkur þegar við náðum markinu og spiluðu nánast með átta varnarmenn. En við hefðum kannski átt að gera þetta aðeins hraðar, bæði í fyrri og seinni hálfleik.“

Sóknarleikur Valskvenna er mjög frjáls og flæðandi. Ásdís byrjar leikinn úti á vinstri kanti en leitaði mikið inn á völlinn til að komast á boltann og upp á topp til að skapa pláss fyrir aftan sig.

„Hann [Pétur Pétursson, þjálfari Vals], segir bara að við megum spila í flæði. Ef sú staða kemur upp í leiknum að ég get farið inn á miðju þá bara geri ég það og einhver fer út á kant. Svo finnst mér fínt að komast aðeins inn á miðjuna og snerta boltann.“

Næsti leikur Vals fer fram á Samsung-vellinum í Garðabæ þegar Stjarnan tekur á móti Íslandsmeisturunum í 4. umferð Bestu deildar kvenna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×