Erlent

Sagður hafa sett upp falda mynda­vél á klósetti skemmti­ferða­skips

Máni Snær Þorláksson skrifar
Maðurinn kom myndavélinni fyrir á klósetti skemmtiferðaskipsins Harmony of the Seas.
Maðurinn kom myndavélinni fyrir á klósetti skemmtiferðaskipsins Harmony of the Seas. Getty/Paco Freire

Karlmaður hefur verið sakaður um að koma upp faldri myndavél á klósetti eins stærsta skemmtiferðaskips í heimi. Maðurinn er sagður hafa tekið upp yfir 150 manns að nota klósettið, þar á meðal mikið af börnum.

Jeremy Froias, maðurinn sem um ræðir, var á siglingu með skemmtiferðaskipinu Harmony of the Seas um Karabíska hafið. Hann kom myndavélinni fyrir á einu baðherbergi skipsins. Samkvæmt umfjöllunn CNN um málið hafði Froias beint myndavélinni að klósettinu og tengt hana við símann sinn í gegnum netið.

Nokkrum dögum eftir að myndavélinni var komið fyrir tók annar farþegi á skipinu eftir henni og lét vita. Öryggisverðir á skipinu tóku myndavélina niður og fundu töluvert af myndböndum á minniskorti hennar.  Þar á meðal voru myndbönd af yfir fjörutíu börnum að nota klósettið.

Froias var í kjölfarið fjarlægður af skipinu og handtekinn. Honum var sleppt úr haldi gegn tryggingu síðastliðinn mánudag í Puerto Rico. Tryggingin var tuttugu og fimm þúsund dollarar sem samsvarar ríflega þremur milljónum í íslenskum krónum.

Honum hefur verið meinað að nota internetið eða vera án eftirlits í samskiptum við nokkurt barn, þar með talið hans eigin tvö börn. Þá þurfti hann einnig að afhenda yfirvöldum vegabréfið sitt. Froias hefur síðan árið 2004 unnið sem netöryggisfulltrúi hjá borginni Kissimmee í Flórída-ríki í Bandaríkjunum. Eftir að hann var handtekinn hefur hann þó verið rekinn úr því starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×