Íslenski boltinn

Besta upphitunin: Gunnhildur Yrsa í tveimur vinnum auk fótboltans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Sæunn Björnsdóttir voru gestir Helenu Ólafsdóttur í Bestu upphituninni.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Sæunn Björnsdóttir voru gestir Helenu Ólafsdóttur í Bestu upphituninni. stöð 2 sport

Þriðja umferð Bestu deildar kvenna hefst í kvöld. Til að hita upp fyrir hana fékk Helena Ólafsdóttir til sín góða gesti, Stjörnukonuna Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og Þróttarann Sæunni Björnsdóttur.

Gunnhildur er kominn aftur í Stjörnuna eftir ellefu ára fjarveru og farsælan feril í atvinnumennsku. Hún er ekkert komin heim til að slaka á þótt hún hafi viljað losna við hið mikla álag sem er í Bandaríkjunum, þar sem hún spilaði síðast.

„Þetta var rétti tíminn. Líkaminn aðeins að gefa sig og mikil ferðalög í Bandaríkjunum og mikið álag. Ég vildi halda áfram að spila og ef ég ætlaði að gera það þurfti ég að minnka aðeins álagið. Ég vildi líka fara að vinna. Ég vildi ekki bara hafa fótbolta, hafa meira að gera og fá festu í lífið. Og planið var alltaf að enda ferilinn í Stjörnunni,“ sagði Gunnhildur sem vinnur svo sannarlega en hún er í tveimur vinnum.

„Ég vinn í Tækniskólanum og svo er ég yfirþjálfari hjá Öspinni. Það er langt síðan ég hef unnið fyrir utan fótboltann þannig ég er bara spennt, með mikla orku og vil gefa af mér.“

Klippa: Besta upphitunin fyrir 3. umferð

Sæunn er í stóru hlutverki hjá Þrótti sem hefur verið í sókn á undanförnum árum. Hún kom til Þróttar frá Haukum, með millilendingu í Fylki. Hún leyfir sér að dreyma um atvinnumennsku.

„Jájá, sérstaklega þegar maður sér jafnaldra sína og leikmenn sem maður spilaði á móti og ólst upp með, eins og Alexöndru [Jóhannsdóttur], Karólínu [Leu Vilhjálmsdóttur] og Sveindísi [Jane Jónsdóttur] sem eru að lifa drauminn. Það er ekkert sem mér finnst rosa fjarstætt,“ sagði laganeminn Sæunn.

„Maður getur séð sig fara út en svo er skóli og vinna sem maður þarf að hugsa út í. Þetta eru tveir pólar en eitthvað kæmi upp myndi maður hugsa út í það.“

Horfa má á Bestu upphitunina í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×