Handbolti

Berge fannst tilboð HSÍ freistandi en hafnaði því á endanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Berge þjálfaði norska landsliðið á árunum 2014-22.
Christian Berge þjálfaði norska landsliðið á árunum 2014-22. epa/Mikkel Berg Pedersen

Nú er endanlega ljóst að Christian Berge tekur ekki við íslenska karlalandsliðinu í handbolta.

Í fréttatilkynningu frá Kolstad, norska ofurliðinu sem Berge þjálfar, kemur fram að hann hafi hafnað tilboði HSÍ að taka við íslenska landsliðinu.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun. Tilboðið að þjálfa íslenska landsliðið ásamt Kolstad var freistandi. Þetta var það sem ég vildi með norska landsliðið en því miður var það ekki hægt,“ sagði Berge í fréttatilkynningunni. Hann hætti með norska landsliðið þegar hann tók við Kolstad í fyrra.

„Ég ákvað að gefa ekki kost á mér til að þjálfa íslenska landsliðið af fjölskylduástæðum. Ég vil njóta tíma með fjölskyldunni þegar það eru rólegri tímar hjá mér með Kolstad.“

Berge segir þó ekki útilokað að hann muni þjálfa landslið samhliða Kolstad í framtíðinni.

Í síðasta þætti Handkastsins kom fram að Snorri Steinn Guðjónsson væri líklegastur til að taka við íslenska landsliðinu eins og staðan er núna.

Alls eru 73 dagar síðan Guðmundur Guðmundsson hætti með íslenska landsliðið. Síðan hefur leit að eftirmanni hans staðið yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×