Lífið

Heiðra Carri­e Fisher með Hollywood-stjörnu á Stjörnu­stríðs­deginum

Atli Ísleifsson skrifar
Carrie Fisher lést af völdum hjartaáfalls árið 2016, þá sextug að aldri.
Carrie Fisher lést af völdum hjartaáfalls árið 2016, þá sextug að aldri. AP

Um sex árum eftir dauða hennar stendur til að heiðra leikkonuna Carrie Fisher í Hollywood með því að afhjúpa stjörnu með nafni hennar á Hollywood Walk of Fame síðar í dag, á óformlegum þjóðhátíðardegi Stjörnustríðsaðdáenda.

Fisher er langþekktust fyrir að hafa farið með hlutverk Leiu prinsessu í stórmyndunum. Hún lést af völdum hjartaáfalls árið 2016, þá sextug að aldri.

Aðdáendur Stjörnustríðsmyndanna halda sérstaklega upp á 4. maí, eða May the fourth á ensku, þar sem vísað er í línuna „May the force be with you“ úr myndunum – „Megi mátturinn vera með þér“.

Það er dóttir Fisher, Billie Lourd, sem mun mæta og afhjúpa stjörnuna, sem verður að finna nærri stjörnunum til heiðurs Mark Hammill og Harrison Ford, ekki langt frá kvikmyndahúsinu þar sem fyrsta Stjörnustríðsmyndin var frumsýnd árið 1977. Hammill fór með hlutverk Loga geimgengils og Ford með hlutverk Han Solo í myndunum.

Aðdáendur Fisher hafa lengi barist fyrir því að hún yrði heiðruð með stjörnu á Hollywood Walk of Fame, en Ford fékk sína stjörnu árið 2003 og Hammill árið 2018.

Fisher fór með hlutverk Leiu prinsessu í fyrstu Stjörnustríðsmyndinni þegar hún var einungis nítján ára gömul. Hún fór aftur með hlutverk Leiu í síðari Stjörnustríðsmyndum og myndinni Rogue One. Hún birtist því í sex Stjörnustríðsmyndum í heildina.

Á ferli sínum lék hún einnig meðal annars í myndum á borð við Blues Brothers og When Harry Met Sally.


Tengdar fréttir

Minntust Carrie Fisher

Sérstakt minningarmyndband til heiðurs Carrie Fisher birtist á veraldarvefnum nú á dögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×