Handbolti

Selfoss heldur í vonina um sæti í efstu deild

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tinna Soffía Traustadóttir skoraði sex mörk fyrir Selfoss í kvöld.
Tinna Soffía Traustadóttir skoraði sex mörk fyrir Selfoss í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Selfoss hélt sér á lífi í umspili um sæti í Olís-deild kvenna í handknattleik með öruggum sigri á ÍR á heimavelli í kvöld. ÍR leiðir 2-1 í einvíginu.

ÍR gat tryggt sér sæti í efstu deild með sigri í kvöld en töluvert hefur verið fjallað um stöðu Selfyssinga sem samið hefur við þrjá sterka leikmenn fyrir næsta tímabil og óvíst hvað yrði ef liðið myndi falla.

Það var aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda í kvöld. Selfoss náði sex marka forskoti fljótlega í leiknum og leiddi 19-9 í hálfleik. Úrslitin í raun ráðin.

Í síðari hálfleik var síðan bara spurning hversu stór sigurinn yrði. Selfoss náði mest þrettán marka forskoti og vann að lokum stórsigur, lokatölur 33-21. Selfoss er því enn á lífi í einvíginu, staðan er 2-1 fyrir ÍR í leikjum en þrjá sigra þarf til að tryggja sér sæti í efstu deild á næsta tímabili.

Katla María Magnúsdóttir skoraði tíu mörk fyrir Selfoss í kvöld og Tinna Soffía Traustadóttir sex mörk. Karen Tinna Demian var markahæst hjá ÍR með fimm mörk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×