Innlent

Bíla­­stæði verða fjar­lægð við Sól­farið og varnar­­garður breikkaður

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sólfarið hefur verið sérstaklega vinsæll áningarstaður ferðamanna undanfarin ár.
Sólfarið hefur verið sérstaklega vinsæll áningarstaður ferðamanna undanfarin ár. Vísir/Vilhelm

Bíla­stæði við Sól­farið fá að fjúka, sjó­varna­rgarður verður lag­færður og gróður verður meira á­berandi, sam­kvæmt nýju deili­skipu­lagi við Norður­strönd, strand­svæðið milli Hörpu og Laugar­ness.

Um­hverfis-og skipu­lags­ráð Reykja­víkur­borgar sam­þykkti að af­greiða til­löguna í aug­lýsingu á fundi sínum í morgun. Þetta kemur fram í til­kynningu á vef borgarinnar.  Tillagan verður formlega auglýst á næstunni. Íbúum gefst tækifæri til að koma með ábendingar á auglýsingatíma.

Í tilkynningunni segir að með til­lögunni sé verið að festa í sessi nú­verandi stíga, lista­verk og áningar­staði við strand­lengjuna og tryggja að út­sýni og sjón­línur frá svæðinu út sundin og til fjalla haldist ó­skert.

Norðurströnd Reykjavíkur er mikilvægt útivistarsvæði og samgönguæð fyrir sjálfbæra ferðamáta að sögn borgaryfirvalda.Reykjavíkurborg

Áningarstaður til móts við Kringlumýrarbraut

Segir þar að sam­kvæmt til­lögunni verði heimilt að koma fyrir list­skreytingum sem falla vel að um­hverfinu. Þá verði gert ráð fyrir því að sjó­varnar­garðurinn verði breikkaður út í sjó þar sem þess er þörf með sam­bæri­legum hætti og þegar hefur verið gert við Eiðs­granda og Ána­naust.

Sam­kvæmt til­lögunni verða bíla­stæði við Sól­farið lögð niður á­samt því að stað­settur verður áningar­staður til móts við Kringlu­mýrar­braut, og hjóla­stígur sveigður í kringum hann. Það er meðal annars til þess að bæta öryggi á þessum fjöl­farna stað.

Þá er gert ráð fyrir að gróður verði meira á­berandi á svæðinu. Gróður­svæðið verði byggt upp með líf­fræði­lega fjöl­breytni að leiðar­ljósi og stuðlað að fjöl­breyttri gróður­þekju tegunda sem þrífast við sjávar­síðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×